Sjónum var einkum beint að tveimur vinsælum vörum fyrirtækisins, Cerelac-ungbarnablöndunni og Nido-mjólkurdufti. Í ljós kom að vörurnar sem seldar eru í fátækari ríkjum innihéldu allt að 7,3 grömmum meira magn af viðbættum sykri í hverjum skammti en vörur sem seldar eru á öðrum mörkuðum þar sem tekjur fólks eru hærri.
Sem dæmi inniheldur Ceralac sem selt er í Taílandi, Eþíópíu, Suður-Afríku, Pakistan og Indlandi allt að sex grömm af viðbættum sykri. Þessi sama vara sem seld er í Bretlandi og Þýskalandi inniheldur hins vegar engan viðbættan sykur.
Í sumum ríkjum, til dæmis Nígeríu, Senegal og Filippseyjum, var ekki að finna neinar upplýsingar um viðbættan sykur í Ceralac. Nido-mjólkurduftið sem selt er í fátækari ríkjum inniheldur einnig meiri sykur en þó ekki í eins miklum mæli og Ceralac.
Samtökin Public Eye segja að með þessu sé Nestlé að ýta undir sykurneyslu í fátækari ríkjum og stuðla að offitu. Nestlé segir hins vegar að sykurmagnið fari eftir ýmsu, til dæmis mismunandi reglugerðum í mismunandi löndum og aðgangi að hráefnum sem nauðsynlegt er í vörurnar.
Eftir að niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar tilkynntu yfirvöld í Indlandi og Bangladess að þau hefðu hafið rannsókn á því hverju sætir að sykraðri vörur rata frekar á markað þar en annars staðar. Segja indversk yfirvöld að gripið verði til aðgerða gegn Nestlé ef fyrirtækið er meðvitað að ýta undir sykurneyslu að ósekju.