Þegar Mnangagwa lýsti neyðarástandinu yfir óskaði hann eftir alþjóðlegri aðstoð upp á tvo milljarða dollara. Hann sagði að úrkoma hefði „verið minni en venjulega“ í 80% landsins vegna áhrifa El Nino veðurfyrirbærisins.
El Nino er veðurfyrirbæri sem gerir vart við sig í Kyrrahafi á nokkurra ára fresti. El Nino hefur áhrif á veður víða um heim. Í suðurhluta Afríku er úrkoma venjulega undir meðallagi þau ár sem áhrifa El Nino gætir.
Þurrkarnir á þessu ári eru þeir verstu áratugum saman og segja sérfræðingar að ástæðan sé að El Nino magni áhrif loftslagsbreytinganna sem eiga sér stað af mannavöldum.
Regntímabilinu seinkaði í suðurhluta Afríku að þessu sinni og úrkoman er undir meðallagi. Þetta hefur eyðilagt uppskeru í stórum hluta sunnanverðrar álfunnar að sögn hjálparsamtaka og þarfnast milljónir manna mataraðstoðar.
Talið er að níu milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum þurrkanna í Malaví og rúmlega sex milljónir í Sambíu að sögn UNICEF. Neyðarástandi var lýst yfir í báðum löndunum í síðasta mánuði.
Hjálparstofnanir segja að tæplega 3 milljónir manna eigi á hættu að glíma við hungur í Simbabve. Matvælahjálp SÞ er nú þegar að störfum í landinu.