Sky News skýrir frá þessu og vitnar í nýja rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature. Fram kemur að þrátt fyrir að bráðnun íssins hafi hægt á snúningi jarðarinnar þá snúist hún enn örlítið hraðar en hún gerði áður.
Þessi aukni snúningshraði þýðir að í fyrsta sinn í sögunni þarf „tímavörslufólk“ að íhuga hvort draga eigi sekúndur frá í tímamælingum okkar.
Í rannsókninni kemur fram að þetta geti endað með að í kringum 2029 verði að sleppa einni sekúndu úr árinu til að halda tímamælingum í samræmi við snúning jarðarinnar. Þetta verður þá „neikvæð hlaupárssekúnda“.
Ef ekki væri fyrir bráðnun íssins þá myndi þurfa að gera þetta 2026.
Snúningshraði jarðarinnar hefur aukist á síðustu áratugum vegna breytinga í kjarna hennar en bráðnun íssins hefur unnið gegn þeirri þróun.
Duncan Agnew, höfundur rannsóknarinnar og jarðeðlisfræðingur við Kaliforníuháskóla, sagði í samtali við NBC News að bráðnun íss á Grænlandi og Suðurskautinu hafi breytt því hvernig ísmassi jarðarinnar dreifist. Nú sé minni ís á norður- og suðursvæðum hennar og því sé meiri massi við miðbaug og það hægi á snúningnum.