Sky News segir að hún eigi ekki möguleika á reynslulausn fyrr en eftir 17 ár. Morðið er sagt hafa verið framið í „reiðikasti“ þegar hjónin deildu um sölu á landskika.
Rawle neitaði sök og bar við sjálfsvörn, að hún hafi verið að verja sig eftir hafa mátt þola ofbeldi af hálfu eiginmannsins árum saman.
James Adkin, dómari, sagði við Rawle að hún hefði stungið eiginmann sinn í bakið með stórum hníf og hafi ætlað að verða honum að bana. Hann gekk rúmlega 100 metra á eftir henni og bað hana um að fjarlægja hnífinn en hneig að lokum niður og lést af völdum hnífsstungunnar. Þau höfðu verið gift í 27 ár.
Rawle sagðist hafa búið við ofríki eiginmannsins, hann hafi stjórnað lífi hennar og beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi árum saman.
Eins og áður sagði þá neitaði Rawle sök og bar við sjálfsvörn. Kviðdómur var ósammála þessu og taldi hana seka um morð.
Sky News segir að Adkin dómari hafi sagt við Rawle að eiginmaður hennar hafi ekki verið fullkominn en hafi ekki verið raðofbeldismaður eins og hún hafi haldið fram. „Aðalástæðan fyrir að þú myrtir eiginmann þinn er að þú hefur enga stjórn á skapi þínu.“
Á upptöku lögreglunnar frá handtökunni heyrist Rawle segja: „Hann var svo grimmur.“ Þegar hún sat í aftursæti lögreglubifreiðar. Hún bætti síðan við: „Hvernig er hægt að elska einhvern? Hvernig getur þú gert allt fyrir einhvern og hann er svo grimmur við þig? Hann mun koma og ná mér og hann mun drepa mig.“
Lögreglan hafði nokkrum sinnum þurft að hafa afskipti af hjónunum á síðustu árum og Rawle hafði að sögn tvisvar áður stungið eiginmann sinn, í annað skiptið með hníf og hitt með gaffli.