Fyrir nokkrum árum var hin sænska Ivana að horfa á heimildarmynd á Youtube um bandaríska fanga á dauðadeild þegar morðinginn Benjamin Ritchie birtist skyndilega á skjánum.
Ritchie hafði verið dæmdur til dauða fyrir að myrða lögreglumann árið 2000. Hann hafði þá stolið sendiferðabíl en það ekki farið betur en svo að lögregubíll veitti honum eftirför. Ritchie skaut þá fimm skotum að lögreglubílnum, sem að hans sögn voru ætlaðar til að fæla lögreglumennina frá, en það fór ekki betur en svo að eitt skotið hæfði einn lögreglumanninn og drap hann á staðnum.
Var Ritchie í kjölfarið handtekinn, ákærður og dæmdur til dauða fyrir ódæðið.
Eitthvað heillaði Ivönu við morðingjann. Hún ákvað að skrifa honum bréf og þar með fór ástin að blómstra milli þeirra.
New York Post fjallaði um þetta einkennilega ástarsamband en Ivana heimsótti Ritchie tíu sinnum á dauðadeild fangelsis í Indiana-fylki og voru þau kærustupar í fjögur ár.
Aðspurð hvað var það sem heillaði hana við morðingjann segir Ivana: „Hann var svo fyndinn og jákvæður“.
Sjálf er hún af bosnískum ættum og hefur gengið í gegnum ýmislegt á sinni ævi en faðir hennar sat einnig í fangelsi á hennar æskuárum.
Hún segir að hún og Ritchie hafi skipulagt flótta hans af dauðadeildinni og þau ráðgert að þau gætu lifað á flótta í að minnsta kosti viku áður en að þau myndu nást. Og þá myndu þau ekki láta ná sér lifandi.
Að endingu hafi hins vegar Ritchie ekki viljað að hún myndi fórna lífi sínu og í kjölfarið hafi hún ekki afborið að halda sambandinu áfram.
Ivana segist hafa lofað því að vera viðstödd aftöku Ritchie sem hefur þó ekki enn verið sett á dagskrá.
Segir hún ennfremur að það hafi komið henni í vandræði í lífinu að hugsa með hjartanu en ekki höfðinu.