Kínverskir geimfarar hafa stundað garðyrkju af kappi um borð í Tiangong geimstöðinni og hefur tekist að rækta kál, tómata og fleiri tegundir.
Til að gera samanburð á ræktuninni og ræktun hér á jörðinni var eftirlíking af geimstöðinni sett upp hér á jörðinni og geta vísindamenn þannig borið niðurstöður ræktunarinnar saman og gert nákvæmar rannsóknir á hvernig plöntur vaxa mismunandi í geimnum og hér á jörðinni.
Live Science segir að þetta sé hluti af langtímaverkefni til að undirbúa langar mannaðar geimferðir.
Yang Renze, hjá kínversku geimferðastofnuninni, sagði í samtali við CCTV að grænmetisræktun sé lykilatriði þegar kemur að geimferðum og markmiðið sé að geta ræktað mikið magn á skjótan hátt. Gænmetið geti dregið koltvíoxíð í sig og framleitt súrefni með ljóstillífun og endurunnið og hreinsað vatn.
Kínverjar stefna á að senda fólk til tunglsins fyrir lok áratugarins og að smíða tunglstöð innan næstu tíu ára.