Orban heimsótti Trump í Mar-a-Lago á Flórída um helgina og er óhætt að segja að heimsókn hans þangað hafi vakið athygli.
Orban, sem er þekktur bandamaður Vladimír Pútín Rússlandsforseta, ræddi heimsóknina við rússneska fjölmiðilinn Pravda í morgun þar sem ýmislegt áhugavert bar á góma.
Nefndi hann að Trump ætlaði að skrúfa fyrir allar fjárveitingar Bandaríkjanna til handa Úkraínu en með því telur Orban ljóst að Rússar vinni fullnaðarsigur gegn Úkraínu.
„Ef Bandaríkjamenn láta ekki fjármagn og vopn af hendi með ríkjum Evrópu þá mun stríðinu ljúka. Ef Bandaríkin láta ekki fjármagn af hendi mun Evrópa ekki getað fjármagnað varnir Úkraínu upp á eigin spýtur,“ sagði hann.
Orban benti á að Trump væri vissulega ekki orðinn forseti en kollegar hans í Repúblikanaflokknum væru þegar farnir að berjast gegn frekari fjárveitingum til Úkraínu. „Þegar hann kemur aftur [verður forseti] mun hann ekki láta Úkraínu fá krónu. Þá mun stríðinu ljúka. Hann segist ekki vilja fjármagna varnir Evrópu og Evrópubúar eru hræddir við Rússana,“ segir hann.