fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Fóru með 6 vikna dóttur sína á bráðamóttöku – 550 dögum seinna fengu þau forræðið aftur

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 8. mars 2024 20:00

Landon og Kaylee ásamt dótturinni Rowan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaylee og Landon Doss tóku eftir kúlu á hálsbeini sex vikna dóttur sinnar, Rowan, dóttirin var þeirra fyrsta barn og ákváðu hjónin að fara strax á bráðamóttökuna. Hjónin urðu undrandi þegar þeim var tjáð að dóttirin væri með mörg beinbrot og búið væri að tilkynna þau til barnaverndar vegna misnotkunar og vanrækslu á barni.

Við tók 18 mánaða barátta hjónanna um að fá aftur forræði yfir dóttur sinni og fóru þau í gegnum ráðgjafar- og uppeldisnámskeið á vegum dómstóla. Seinna kom í ljós að beinbrotin voru vegna erfðasjúkdóms.

Hjónin segja sögu sína í viðtali við People. Á fyrri hluta ársins 2022 voru þau hamingjusöm, nýbúin að eignast sitt fyrsta barn og voru að finna sig í nýju hlutverki sem foreldrar.

„Þetta var voða klisjukennt, rólegt og rómantískt. Við vorum nýtrúlofuð þegar ég varð ólétt og giftum okkur viku eftir að Rowan fæddist,“ segir Kaylee sem starfaði sem lyfjatæknir en Landon starfaði sem lögreglumaður.

Kvöld eitt var fjölskyldan í heimsókn hjá fjölskyldumeðlimi, þau komu síðan heim og hjónin lögðu dótturina í rúmið sitt. Þegar hún vaknaði rétt eftir miðnætti 12. júní 2022 tóku þau eftir kúlu á hálsbeini hennar.

„Ég hugsaði strax að þetta væri krabbamein eða eitthvað annað hræðilegt. Í minni fjölskyldu er saga um beinvandamál. Þannig að við ákváðum að fara strax með hana á sjúkrahúsið,“ segir Kaylee. Þar biðu þau tæpa fjóra tíma áður en dóttirin var skoðuð.

Í fyrstu voru hjúkrunarfræðingar að hughreysta móðurina, en eftir að fjölskyldan hafði verið skráð inn og sett inn í herbergi breyttist viðmótið. Það var rétt fyrir klukkan sex að morgni þegar hjúkrunarfræðingur kom inn.

„Hún leit á okkur og spurði: „Hvað hefur þú gert við þetta barn? “ segir Kaylee. „Hún sagði: „Til þess að barn geti slasast svona alvarlega þarf eitthvað alvarlegt að hafa gerst.“

Tilkynnt til barnaverndar og bannað að yfirgefa sjúkrahúsið

Hjónunum var tilkynnt að hringt hefði verið í barnaverndaryfirvöld og þau gætu ekki yfirgefið sjúkrahúsið fyrr en þau hefðu rætt við fulltrúa frá barnavernd.

„Og síðan gekk hjúkrunarfræðingurinn út. Hún sagði okkur ekki hvað væri að Rowan, tilgreindi ekki meiðsli hennar. Hún sagði okkur bara að við þyrftum að hafa söguna okkar á hreinu,“ segir Kaylee. Tveimur vikum áður voru þau með dótturina á sjúkrahúsi þar sem hún var með öndunarfærasýkingu sem foreldrarnir óttuðumst að væri lungnabólga.

Hjúkrunarfræðingur kom aftur og tilkynnti hjónunum að þau þyrftu að skrifa undir pappíra til að samþykkja frekari próf. „Við skrifuðum undir og héldum að við værum að fara í erfðarannsóknir. En þær voru ekki gerðar, þess í stað var gert nauðgunarpróf, full skoðun á beinagrindinni, auk umfangsmikilla tölvusneiðmynda og segulómskoðunar,“ segir Kaylee og segir að enn þann dag í dag viti þau hjónin ekki um allar rannsóknir og skoðanirsem gerðar voru á dóttur þeirra.

Rowan var lögð inn, og kl. 10 morguninn eftir var foreldrunum greint frá því að skoðanir sýndu að dóttir þeirra væri með fjölda beinbrota. „Barnalæknir sagði okkur að hún væri með á milli 8 og 13 beinbrot.“

Hjónin voru sett undir „öryggisáætlun“ sem fólst í því að þau voru sett inn í sjúkrahúsherbergi með stórum gluggum svo starfsfólk gæti fylgst með þeim. Þau fengu að gista hjá dótturinni næstu nótt, en daginn eftir komu félagsráðgjafar til fundar við þau. Þar var þeim tilkynnt að dótturinni yrði komið fyrir í tímabundnu fóstri og hvort að foreldrarnir væru með fjölskyldumeðlim eða vin sem gæti tekið dótturina í fóstur.

Hjónin stungu upp á ömmu Kaylee og hringdu í hana til að segja henni hvað væri að gerast. Félagsráðgjafarnir sögðust þurfa að kanna ömmuna og bakgrunn hennar áður en fóstur yrði samþykkt, en dóttirin yrði á spítalanum þangað til, foreldrarnir þyrftu hins vegar að fara heim án dóttur sinnar.

„Ég hafði aldrei orðið fyrir áfalli eins og þessu á ævinni. Ég hef gengið í gegnum ýmislegt, en ekkert jafnast á við það að barnið þitt sé rifið frá þér og að syrgja barn sem er á lífi,“ segir Kaylee. „Og það var það sem við vorum að gera. Við vorum að syrgja að missa lifandi barn sem við gátum hitt, en við fengum ekki að ala upp.“

Hjónin hittu næst annan félagsráðgjafa sem var ekki alveg með á hreinu af hverju tilkynnt hefði verið um ofbeldi og vanrækslu, sagði hann að Rowan „liti ekki út fyrir að vera meidd, misnotuð eða vanrækt.“ Félagsráðgjafinn ráðlagði hjónunum að láta rannsóknina hafa sinn gang, sem tæki venjulega á milli 30 til 45 daga.

Amma Kaylee hafði fengið að dvelja á sjúkrahúsinu eina nótt hjá Rowan. Daginn eftir var henni tilkynnt að hún gæti ekki verið þar lengur og yrði að fara. Rowan yrði send í fóstur. Foreldrarnir komust síðan að því að starfsmaður sjúkrahússins hafði farið heim með Rowan, þar sem hún var í þrjá sólarhringa þar til barnaverndaryfirvöld samþykktu að amman fengi að taka hana í fóstur. Þar máttu foreldrarnir hitta hana daglega, þau máttu þó ekki vera ein með henni eða fara með hana út. Þannig leið tíminn frá júní til nóvember.

„Við gátum gefið henni að borða, skipt á henni, leikið við hana. Við reyndum að vera eins mikið með henni og við gátum, en við misstum samt af fyrsta hlátrinum hennar, fyrsta skriðinu hennar og fyrsta skiptinu sem hún borðaði fasta fæðu. Við misstum af þessum frábæru augnablikum í þroska hennar og fannst við vera svo svipt öllu sem þú átt að eiga sem foreldri.“

Málið tekið fyrir í dómsal 10 mánuðum síðar

Í nóvember komu hjónin fyrir dómstóla með fjölskyldu sína, vini, prest og aðra til vitnisburðar um hæfni þeirra sem einstaklingar og foreldrar. Í vitnastúkunni var Kaylee spurð út í eigin sjúkrasögu, hvers kyns merki um kvíða eftir fæðingu eða þunglyndi og hvað hún hélt að hefði komið fyrir Rowan.

„Ég sagðist ekki bera ábyrgð á beinbrotum hennar, ég hefði ekki meitt hana. Ég hefði ekki valdið Rowan neinum skaða af því hún hafði ekki orðið fyrir neinum skaða.“

Hjónin voru látin skrifa undir skjal sem „innihélt þær staðreyndir sem barnalæknirinn taldi vera réttar,“ lögmaður hjónanna útskýrði að þetta væri ekki játning á sekt, barnaverndaryfirvöld vildu aðeins að hjónin viðurkenndu að barnalæknirinn væri staðfastur í trú sinni á ástandi Rowan. Hjónin ákváðu að skrifa undir ákvæðið og lögfræðingur þeirra ítrekaði hvað það þýddi þegar þau lögðu skjalið fyrir dómstólinn.

Dómarinn dæmdi hins vegar um að Rowan væri misnotað og vanrækt barn og að hún yrði áfram á forsjá ríkisins. Ef að foreldrarnir væru enn viljugir til að fá forræðið aftur yrðu þau að gangast undir ákveðna sameiningaráætlun. Hjónin samþykktu það og á þriggja mánaða fresti var farið yfir stöðuna.

„Þeir vildu að við færum á uppeldisnámskeið, forvarnarnámskeið í kynferðisofbeldi, fengjum vitsmunalegt klínískt mat, fengjum mat á getu okkar sem foreldri. Þeir vildu að við færum í einstaklingsráðgjöf og hjónabandsráðgjöf,“ segir Kaylee. Einu sinni í viku fengum þau svo að hitta dóttur sína undir eftirliti.

Útskýring finnst á beinbrotum Rowan

Allan tímann hélt Kaylee áfram að leita að læknisfræðilegum svörum fyrir dóttur sína. „Ég fann grein þar sem fjallað var um rannsókn á 72 ungbörnum, sem voru með beinbrot og vandamál sem líkjast efnaskiptabeinsjúkdómum. Börnin voru síðar öll greind með Ehlers-Danlos heilkenni,“ segir Kaylee, sem bar greinina undir lögfræðinginn sinn og félagsráðgjafana.

„Ég var handviss um að þetta væri það sem amaði að Rowan, þetta voru sams konar beinbrot, sami fjöldi beinbrota, sömu staðsetningar.“ Á Facebook fann hún lista yfir sérfræðinga sem eru tiltækir til að aðstoða við slíkar aðstæður. Meðal þeirra var Dr. Michael Hollick, sem stjórnaði rannsókninni á ungbörnunum 72.

„Ég sendi honum tölvupóst með myndum og sagði að dóttir mín væri með sams konar beinbrot og sömu einkenni,“ segir Kaylee, sem fékk svar frá Hollick sólarhring síðar þar sem hann vildi hitta þau. Fengu hjónin leyfi til að ferðast undir eftirliti með Rowan til Boston háskólans til að hitta Dr. Hollick í janúar 2023.

„Við komum þangað og hann gerði erfðafræðiskoðun á Rowan, mér og mömmu, og við stóðumst allar Beighton stigakerfið. Ég var með átta af níu merkjum. Rowan og mamma voru með sjö. Þetta útskýrði öll læknisvandamál okkar og vítamínskort. Þetta útskýrði beinbrot Rowan.“

Hjónin kláruðu sameiningaráætlunina og í desember 2023 komu þau aftur fyrir dómara sem bað þau afsökunar. „Dómarinn þakkaði okkur fyrir samstarfið og óskaði okkur til hamingju með að hafa fengið Rowan aftur. Hann sagði að sem foreldrar hefðum við sýnt fram á að við vorum tilbúin til að gera erfiða hluti og leggja á okkur vinnu og fyrirhöfn til að fá aftur forræði yfir dóttur okkar. Dómarinn baðst afsökunar á hvað málið hefði tekið langan tíma og ekkert gæti afsakað af hverju málið hefði dregist svona af hálfu yfirvalda,“ segir Kaylee sem segir það gott að fá viðurkenningu frá hinu opinbera að ferlið hafi verið martröð líkast fyrir fjölskylduna. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að fjölskyldan var aðskilin í 18 mánuði og henni finnist skrýtið að vera óskað til hamingju að fá dóttur sína til baka.

„Þegar upp er staðið þá erum við með læknisfræðilega ástæðu fyrir því hvað var að dóttur okkar. Þetta var ekki sigur fyrir okkur,“ segir Kaylee, sem segist geyma öll skjöl frá ferlinu, bæði frá spítalanum og dómsmálinu. Einn daginn muni dóttir hennar vilja vita allt sem gekk á. Hún segir þau hjónin vilja segja sína sögu í von um að hjálpa öðrum foreldrum, þau stigu hins vegar ekki fram með sögu sína fyrr en dómsmálinu var að fullu lokið. Yfir þrjár milljónir athugasemda hafa verið gerðar við sögu þeirra á samfélagsmiðlum.

Hjónin eignuðust soninn Reese í nóvember 2023

„Það eru svo margar fjölskyldur sem ganga í gegnum svipaða hluti og það getur verið léttir fyrir aðra foreldra að sjá hvernig okkar máli lauk og hversu vel Rowan stækkar og þroskast,“ segir Kaylee

„Rowan verður 2 ára í apríl og hún er langt yfir meðallagi í þroska. Hún talar í heilum setningum og er forvitin um pöddur og náttúru og risaeðlur. Uppáhaldsmyndin hennar er A Bug’s Life. Hún er hamingjusöm, heppið, fallegt smábarn. Hún elskar og dáir fjögurra mánaða gamlan bróður sinn, Reese.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by 𝕜𝕒𝕪 (@kaylee__doss)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi