Í nóvember árið 2016 sendi Wanda Dench 24 ára gömlum ömmusyni sínum sms og bauð honum í mat á Þakkargjörðinni (e. Thanksgiving). Sms-ið rataði þó ekki til hans, heldur Jamal Hinton, 17 ára.
Dench og Hinton skiptumst á skilaboðum og myndum, og misskilningurinn var leiðréttur. Enda kom í ljós að ömmudrengur Dench hafði skipt um símanúmer og gleymt að láta ömmu sína vita. Hinton spurði Dench hvort hann gæti enn komið í kvöldmat og hún sendi skilaboð til baka: „Auðvitað geturðu það. Það er það sem ömmur gera … fæða alla.“
Hinton mætti í matarboðið og milli þeirra myndaðist vinátta, og hefur Hinton komið árlega í matarboð til vinkonu sinnar á þakkargjörðinni og haldið sambandi utan hátíðarinnar.
„Þetta var áminning um að enn er gott fólk í þessum heimi. Hún er mjög góð kona, mér leið bara eins og heima hjá mér þegar ég kom til hennar.“
Sögunni var deilt á netið og heillaði hún netverja víða um heim og hefur gert alla tíð síðan.
Á fimmtudag greindi Hinton frá því að þau vinir væru komin í samstarf við Netflix um að gera mynd um vináttu þeirra og óvæntan hátíðarhitting þeirra.
„Ég er mjög spenntur að tilkynna um nýtt samstarf okkar við Netflix,“ skrifaði Hinton sem nú er orðinn 22 ára. „Við þökkum ykkur öllum fyrir ást ykkar og stuðning á ferðalagi okkar síðustu sex árin. Við getum ekki beðið eftir að segja sögu okkar á hvíta tjaldinu!“
Samkvæmt Variety mun myndin, sem ber heitið Þakkargjörðarskilaboðin (e. Thanksgiving Text), segja hvernig Hinton og Dench kynntust og hvernig þau hafa viðhaldið vináttu sinni og hátíðarhefð síðustu sex árin. Munu þau vinna að handritinu með handritshöfundinum Abdul Williams.
„Við erum spennt að deila sögu okkar með heiminum. Við vonum að saga okkar hvetji fleiri til að ná til og mynda tengsl með ólíkum einstaklingum. Við vorum svo lánsöm að finna ósvikna vináttu með röngum textaskilaboðum.“
Hinton hefur árlega birt myndir af þeim vinunum á samfélagsmiðlum, og eins þegar þau hafa hist utan Þakkargjörðarinnar. Kærasta hans Mikaela hefur síðar bæst við og vel fer á með henni og Dench.
We are all set for year 6! 🦃 pic.twitter.com/wEQioizWGd
— Jamal Hinton (@Jamalhinton12) November 14, 2021