DV hefur fjallað um málið síðustu vikur en Samantha hvarf eftir að hafa farið út að skokka að morgni sunnudagsins 4. febrúar. Fór hún frá heimili sínu í Ballarat í Viktoríufylki en sneri ekki til baka. Mjög umfangsmikil leit var gerð í kjölfarið sem skilaði engum árangri.
News.com.au greinir frá því að maðurinn hafi verið handtekinn í gær og yfirheyrður í nokkrar klukkustundir. Telur lögregla að maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, hafi rænt Samönthu og myrt hana. Ekki leikur grunur á að þau hafi þekkst.
Lögregla hefur ráðist í húsleitir vegna málsins en lögregla telur að Samantha hafi verið myrt um tíu kílómetrum frá heimili hennar í Ballarat. Telur lögregla að um morð að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða og ekki hafi verið ekið á Samönthu eins og einhverjir töldu.
Lík Samönthu hefur ekki fundist en lögregla vonast til þess að hinn handtekni leiði lögreglu í allan sannleikann um hvað gerðist.