Málið snýst um Lamborghini Huracan sem var í eigu Norðmannsins Shakhwan Ameen. Í október 2021 var hann á hraðferð eftir danskri hraðbraut til að ná ferjunni frá Hirsthals til Stavanger. Hann keypti bílinn tveimur dögum áður í Þýskalandi og greiddi sem svarar til um 40 milljóna íslenskra króna fyrir hann.
Þegar hann ók í átt til Hirsthals var lögreglan við hraðamælingar og mældist hraði bifreiðarinnar 228 km/klst en leyfður hámarkshraði var 110 km/klst. Samkvæmt dönskum lögum þá flokkast hraðakstur sem þessi sem „brjálæðisakstur“ og af þeim sökum lagði lögreglan hald á bílinn. Auk þess var Ameen sviptur ökuréttindum þegar málið kom fyrir dóm. Dómurinn dæmdi hann einnig í 20 daga skilorðsbundið fangelsi og bannaði honum að koma til Danmerkur næstu sex árin. Auk þess var bíllinn gerður upptækur.
Vejle Amts Folkeblad segir að bíllinn hafi verið seldur á uppboði á mánudaginn og fengust sem svarar til 38 milljóna íslenskra króna fyrir hann. Peningarnir renna í ríkissjóð.
Ameen er allt annað en sáttur við þetta og segist ætlað að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Í samtali við VG í desember á síðasta ári sagði hann að það hafi haft mikil fjárhagsleg áhrif á hann að bíllinn var gerður upptækur. Hann viðurkenndi að hafa ekið of hratt en ekki eins hratt og mæling lögreglunnar sýndi.