Tommie-lee Gracie Billington, 11 ára drengur í Lancaster á Englandi, fannst látinn á heimili vinar síns síðastliðinn laugardag en grunur leikur á að hann og félagar hans hafi verið að apa eftir áskorun sem hefur breiðst út á samfélagsmiðlum undanfarin misseri.
Áskorunin felur í sér að anda að sér hættulegum efnum í þeim tilgangi að komast í vímu, en oftar en ekki er um að ræða efni sem eru aðgengileg hverjum sem er. Þetta eru til dæmis leysiefni og gashylki sem finnast í svitalyktareyðum og rjómasprautum.
Efnin hafa áhrif á miðtaugakerfi líkamans og hægja á heilastarfseminni sem getur valdið tímabundinni vímu. En afleiðingarnar geta verið stórhættulegar eins og þetta dæmi sýnir og komið fram í hjartastoppi eða köfnun.
Tommie-lee hafði gist heima hjá félaga sínum nóttina áður og virðast drengirnir þá hafa verið að fikta með hættuleg efni. Hann fannst svo meðvitundarlaus morguninn eftir og var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús.
Tina Burns, amma Tommie, segir við breska fjölmiðla að hún vilji að samfélagsmiðlar á borð‘ við TikTok verði bannaðir og öllum börnum undir 16 ára verði bannað að nota samfélagsmiðla. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að forsvarsmenn TikTok hafi reynt að koma í veg fyrir dreifingu myndbanda sem sýna athæfið en betur megi ef duga skal.
„Þetta er hrikalega erfitt en við viljum leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir að önnur börn geri eitthvað svipað,“ segir hún.