Ruby var heima í náttsloppnum þennan örlagaríka dag þegar lögreglumenn með gjallarhorn skipuðu henni að fara út. Fyrir utan biðu sérsveitarmenn, gráir fyrir járnum, og þorði Ruby ekki öðru en að hlýða. Þegar út var komið var henni skellt inn í lögreglubíl á meðan gerð var húsleit á heimili hennar sem stóð yfir í nokkrar klukkustundir. Bílskúrshurðin var mölbrotin, verðmætir og persónulegir munir eyðilagðir og húsinu snúið á hvolf.
Síðar kom á daginn að allan þennan viðbúnað mætti rekja til þjófnaðar á bifreið skömmu áður en í umræddum bíl var töluvert magn skotvopna, 4.000 Bandaríkjadalir í peningum og iPhone-farsími sem á endanum reyndist örlagavaldur í lífi Ruby.
Þar sem stolni bíllinn var fullur af skotvopnum höfðu lögreglumenn áhyggjur af því að vopnin kæmust í rangar hendur. Var notast við Find My iPhone-forritið sem gerir eigendum iPhone kleift að staðsetja símann ef hann týnist– svona nokkurn veginn allavega.
Þessi fídus er þó ekki fullkomnari en svo að forritið staðsetti símann við heimili Ruby sem kom þó hvergi nærri umræddum þjófnaði. Þrátt fyrir það fékk lögregla húsleitarheimild á heimili Ruby.
Ruby fór í mál við lögregluna og hafði betur. Hefur kviðdómur nú úrskurðað að hún fái greiddar 3,76 milljónir dala í bætur, rúman hálfan milljarð króna. Málið hafði sín áhrif á Ruby því hún upplifði mikið öryggisleysi í kjölfarið og ákvað að flytja úr Montebello-hverfinu í Denver þar sem hún hafði búið í 40 ár.