Margir hafa eflaust tekið eftir því að ekki er hægt að skrá sig inn á Facebook. Notendur víða um heim hafa greint frá því að Facebook hafi skráð þau út og ekki sé hægt að skrá sig aftur inn. Nú segir á upphafssíðu miðilsins að vefurinn sé niðri sökum viðhalds. Notendur sem reyndu að skrá sig aftur inn fengu meldingu um að lykilorð þeirra hafi verið slegið rangt inn.
Sami vandi á við um Instagram.
Samkvæmt erlendum miðlum er um víðtækt þjónusturof að ræða. Notendur séu ráðvilltir og hafi málið vakið upp spurningar um öryggi samfélagsmiðla á vegum META. Fyrirtækið hefur ekki gefið út yfirlýsingu vegna málsins að svo búnu, en ætla má að þetta sé umfangsmesta þjónusturof Facebook í langan tíma. Fjöldi miðla hafa leitað eftir viðbrögðum frá forsvarsmönnum META, en engin svör fengið. Ljóst er að þjónusturofið hefur áhrif á starfsemi fyrirtækja og þeirra sem nýta miðilinn til stafrænna samskipta. Þetta vekur upp spurningar hvort að almenningur sé farinn að treysta um of á miðla sem þessa, og hvort breytinga sé þörf.
Samkvæmt vefsíðunni Down for Everyone or Just Me bárust fyrstu tilkynningar um vandann um þrjúleytið. Samskiptamiðillinn WhatsApp, sem er einnig í eigu META, virðist þó virka eðlilega. Á vefsíðunni metastatus.com þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um stöðu afurða META kemur fram verkfræðingar META séu meðvitaðir um vandamálið og séu að vinna að lausn.