Sky News segir að lögreglan hafi fundið fólkið í vegkanti um klukkan 23 á föstudaginn og hafi svo virst sem gengið hefði verið í skrokk á því. Talsmaður lögreglunnar sagði að fólkið hafi sagt að sjö menn hefðu brotið gegn þeim en veittu ekki frekari upplýsingar um hvers kyns brot væri að ræða.
Þegar fólkið, Vicente og Fernanda, ræddi við spænska sjónvarpsstöð á laugardaginn sögðu þau að sjö menn hefðu nauðgað Fernanda og gengið ítrekað í skrokk á Vicente.
„Þeir nauðguðu mér, skiptust á á meðan sumir horfðu á og þannig gekk þetta í um tvær klukkustundir,“ sagði Fernanda.
Þau sögðust hafa gist í tjaldi því þau fundu ekkert hótel á svæðinu.
Þau eru á ferðalagi um heiminn á mótorhjólum og leyfa um 200.000 fylgjendum sínum að fylgjast með ferðalaginu á Instagram.
Þau sögðu frá árásinni á Instagram og sagði Vicente að munnur hans sé „ónýtur“ eftir að hann var laminn með hjálminum sínum.
Fernanda sagði að sjö menn hefðu nauðgað henni og að verðmætum hefði einnig verið rænt af þeim.
Talsmaður lögreglunnar sagði að einn hinna handteknu hefði skýrt frá nöfnum fjórmenninganna sem er leitað og að sérfræðingar væru að rannsaka lífsýni og önnur sönnunargögn.
Mikið er um ofbeldisverk gegn konum á Indlandi en rúmlega 31.000 nauðganir voru kærðar árið 2022.