„Honum datt aldrei nokkru sinni í hug að hann myndi lenda í svona hörmulegum atburði,“ sagði bróðir hans, Eh Xiong, í samtali við BBC.
Dauði hans er meðal margra „dularfullra“ og „grunsamlegra“ dauðsfalla bandarískra ferðamanna í Medellin að því er segir á heimasíðu bandaríska sendiráðsins í Kólumbíu. Það varar nú Bandaríkjamenn við hættum sem geta fylgt því að stunda stefnumót á Internetinu og hitta síðan hinn aðilann í Kólumbíu.
The New York Post segir að svo virðist sem Tou Ger Xiong sé eitt nýjasta fórnarlambið í „hryllilegu trendi“ sem hefur riðið yfir síðustu mánuði. Orðið trend er notað yfir þessi mál sem öll tengjast andlátum átta bandarískra ferðamanna í Kólumbíu.
Ekkert hefur komið fram sem bendir til að málin tengist, annað en að í mörgum þeirra voru fórnarlömbin rænd, neydd til að taka inn eiturlyf og auðvitað stefnumót á Internetinu að því er segir í færslu bandaríska sendiráðsins sem segir að markmið ofbeldismannanna sé að komast yfir peninga.
Tou Ger Xiong vissi vel um þessi mál að sögn bróður hans, sem sagði í samtali við The New York Post, að samt sem áður hafi hann talið sig öruggan í landinu. „Hann var svona manneskja sem trúir á það besta í fólki,“ sagði bróðirinn.
BBC segir að ekki sé vitað hvort Tou Ger Xiong hafi kynnst konunni, sem er fimmtug, í gegnum stefnumótaapp eða hvort hann hafi hitt hana í einhverri af ferðum sínum til Kólumbíu.
En það er vitað að hann var með henni þegar hann hringdi skyndilega í mikilli örvæntingu í bróðir sinn og vin.
Hann ætlaði að hitta konuna, sem hann hafði skrifast á við, þann 10. desember. Þetta endaði með að honum var haldið föngnum í íbúð einni, laminn, pyntaður og verðmætum var stolið af honum af stórum hópi fólks að sögn CBS News.
Hann hringdi í bróður sinn og bað hann um að láns sér 3.000 dollara því það væri lausnargjaldið sem mannræningjarnir vildu fá. Hann hringdi einnig í vin sinn í Kólumbíu til að segja honum að honum væri haldið föngnum og skammbyssu væri miðað á hann, að það þyrfti að finna lausn á þessu.
Fjölskylda hans millifærði 3.000 dollara til konu einnar til að fá hann látinn lausan. En það skipti ekki máli því farið var með hann út í afskekkt skóglendi þar sem honum var kastað fram af 80 metra kletti.
Fernt er í haldi lögreglunnar, einn unglingur og þrír fullorðnir, vegna málsins og er fólkið grunað um að hafa banað honum.