The Guardian skýrir frá þessu og segir að við réttarhöldin hafi móðurbróðir hennar, Bil Wiese, ítrekað hvatt dómstólinn til að dæma Heather til þyngstu mögulegrar refsingar. „Hún hefur aldrei sýnt nein merki iðrunar. Ef ég réði, myndi hún eyða restinni af lífinu bak við lás og slá,“ sagði hann þegar hann sat í vitnastúkunni.
Eins og fyrr sagði þá var dómurinn kveðinn upp í síðustu viku en Heather játaði sök í júní síðastliðnum. Hún var 18 ára og barnshafandi þegar hún myrti móður sína. Hún sagðist hafa framið morðið í samvinnu við unnusta sinn, Tommy Schaefer, í þeirri von að komast yfir auð móður sinnar en hann var talsverður.
Mæðgurnar fóru saman í frí til Balí. Án þess að segja móður sinni, keypti Heather flugmiða fyrir Tommy til Balí og hleypti honum inn í hótelherbergið á meðan móðir hennar var sofandi. Móðirin lést af völdum áverka sem hún hlaut þegar Tommy barði hana ítrekað með ávaxtaskál. Heather hélt fyrir munn hennar á meðan að sögn CBS News.
Að morðinu loknu, settu þau líkið í ferðatösku sem þau settu síðan í skottið á leigubíl. Líkið fannst síðan í kjölfar þess að þau stungu af úr leigubílnum án þess að greiða fyrir aksturinn.
Heather hefur nú þegar setið í fangelsi í níu ár, sjö ár í Indónesíu og tvö í Bandaríkjunum. Tommy var dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðið.