Lögregluyfirvöld á Gíbraltar hafa nú blásið til leitar að líkamsleifum sjóliðans Simon Parkes, sem hvarf árið 1986 þá aðeins 18 ára gamall. Í gegnum árin hefur málið reglulega skotið upp kollinum þar ytra enda vakti hvarf sjóliðans talsverða athygli. Rúmlega 30 þúsund manns búa á Gíbraltar og því mannshvörf þar fremur fátíð.
Sá sem grunaður er um morðið er annar sjóliði, Allan Michael Grimson, en hann afplánar nú 22 ára fangelsisdóm, sem hann hlaut árið 2001 fyrir hrottaleg morð á tveimur öðrum ungum sjóliðum þeim Nicholas Wright, sem var myrtur árið 1997 og Sion Jenkins, sem hlaut sömu örlög árið 1998 en bæði morðin áttu sér stað í Portsmouth, Englandi, heimabæ Grimson.
Athygli vekur að báðir piltarnir voru drepnir þann 12. desember en þann sama dag, rúmum áratug fyrr, hvarf Parkes. Parkes var sjóliði á breska herskipinu HMS Illustrious en nokkru eftir hvarf hans kom í ljós að Grimson var einnig sjóliði um borð. Þá hafa vitni stigið fram sem hafa sagt að Parkes og Grimson hafi sést saman á þekktum bar á Gíbraltar daginn sem hvarfið átti sér stað. Allar líkur eru því taldar á því að Grimson beri ábyrgð á dauða hans.
Þá telur lögreglan að möguleiki sé á því að Grimson hafi drepið einhvern ár hvert þann 12. desember, fram að því hann hóf afplánun fangelsisdómsins, og rannsakar nú lögregla hvort að önnur óleyst mannshvörf, sem áttu sér stað í kringum þessa dagsetningu, tengist Grimson.
Grimson er talinn stórhættulegur siðblindingi en hann er samkynhneigður og fórnarlömb hans eingöngu ungir karlmenn. Einn af þeim geðlæknum þeim sem hefur rannsakað Grimson segir hann þann hættulegasta siðblindingja sem hann hefur komist í kynni við. Grimson hefur verið uppnefndur Frankenstein-morðinginn enda þykir hann minna á skrímslið fræga í útliti. Talið er að fórnarlömb hans geti verið tuttugu talsins en rannsóknarlögreglumenn hafa reynt að kortleggja ferðir hans sem og að skoða þau mannshvörf sem koma upp í kringum 12. desember.
Þá liggur ekki fyrir af hverju sú dagsetning er Grimson svo hugleikin en talið er að hann hafi mögulega orðið fyrir einhverskonar áfalli þennan tiltekna dag í æsku sinni.