Segir ráðuneytið að tilraunin hafi verið svar við sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna, Japan og Suður-Kóreu. í þeim tók meðal annars kjarnorkuknúið bandarískt flugmóðurskip þátt.
Segja Norðanmenn að æfingin sé „alvarleg ógn við öryggi landsins“ og því hafi verið gripið til þess ráðs að prófa neðansjávarkjarnorkusprengjuna Haeil-5-23 í Japanshafi, nærri Kóreu.
Áður höfðu Norðanmenn sagt að þeir hafi gert margvíslegar tilraunir með neðansjávardróna sem getur borið kjarnaodd. Með þessu segjast þeir geta komið af stað „geislavirkri flóðbylgju“. Haeil þýðir flóðbylgja á kóresku.
Sérfræðingar eru þó ekki vissir um að Norður-Kóreumenn séu að segja satt og hafa efasemdir um að þeir ráði yfir vopni af þessu tagi.
Spennan á milli Kóreuríkjanna hefur aukist mikið á síðustu vikum og bæði hafa þau eflt viðbúnað sinn við landamærin og staðið fyrir heræfingum við þau.
Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, sagði í síðustu viku að sameining ríkjanna væri ekki lengur möguleg og að Norður-Kórea vilji ekki að til stríðs komi en hafi heldur ekki í hyggju að forðast stríð. Hann tilkynnti jafnframt að þeim stofnunum, sem vinna við að koma á ferðum ferðamanna á milli ríkjanna, verði lokað sem og þeirri stofnun sem undirbjó hugsanlega sameiningu þeirra.