Niðurstöður rannsóknar vísindamannanna voru birtar á dögunum og hafa fjölmiðlar á borð við New York Post og Daily Mail fjallað um þær.
Vísindamennirnir eru sagðir hafa klónað vírus, sem kallast GX_P2V, sem finnst í hreisturdýrum. Erfðabreyttar mýs voru sýktar af vírusnum og var markmiðið að skoða hvernig menn myndu bregðast við ef þeir myndu sýkjast af þessum tiltekna vírus.
Í niðurstöðum vísindamannanna kemur fram að það hafi komið þeim á óvart hversu hratt framgangur sjúkdómsins var í þeim músum sem voru sýktar.
Vírusinn hafði áhrif á lungu, bein, augu og heila. Mýsnar sem sýktust léttust mikið og áttu erfitt með að hreyfa sig áður en þær drápust.
Í umfjöllun New York Post kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn dánarhlutfall er 100% í rannsókn þar sem veirur úr ætt kórónuveira koma við sögu.
Rannsóknin hefur fengið hörð viðbrögð í vísindasamfélaginu og segir Francois Balloux, prófessor í faraldursfræði við University College London, að um algjörlega tilgangslausa rannsókn sé að ræða. Sagði hann á samfélagsmiðlinum X að hann sæi ekkert gott koma út úr slíkri rannsókn.
„Á sama tíma get ég séð hvernig svona rannsókn getur farið úrskeiðis,“ sagði hann og vísaði í hættuna á því að veiran komist í menn.
Benti hann á að ekkert væri fjallað um það í rannsókninni hvaða varúðarráðstafanir hefðu verið gerðar í rannsókninni til að tryggja að veiran kæmist ekki út af tilraunastofunni. Undir þetta tók Richard H. Ebright, prófessor í efna- og líffræði við Ruger‘s University.