Átta bandarískir ferðamenn eru sagðir hafa látist í nóvember og desember við grunsamlegar aðstæður.
Segir sendiráðið að skipulagðir glæpahópar noti forritin til að lokka grunlausa ferðamenn á veitingastaði eða bari þar sem þeir eru síðan rændir, barðir og jafnvel drepnir.
Í tilkynningu sendiráðsins kemur fram að brot af þessu tagi, það er líkamsárásir og rán, séu oft ekki tilkynnt þar sem fórnarlömbin eiga það til að upplifa skömm.
DV sagði á dögunum frá bandaríska skemmtikraftinum Tou Ger Xioung sem mælti sér mót við óþekkta konu þegar hann var staddur í Kólumbíu í desember. Honum var rænt og fannst lík hans í útjaðri Medellin eftir að mannræningjarnir kröfðust lausnargjalds fyrir hann.
Sjá einnig: Bandarískur skemmtikraftur fannst myrtur – Var rænt þegar hann ætlaði að hitta dularfulla konu
Bandarísk yfirvöld hafa ekki ástæðu til að ætla að öll átta dauðsföllin tengist en málin hafa komið upp í borgunum Medellin, Cartagena og Bogota.
BBC bendir á að það sé ekki með öllu hættulaust að vera erlendur ferðamaður í Kólumbíu. Tilkynningum um rán fjölgaði um 200% síðustu þrjá mánuði nýliðsins árs samanborið við árið þar á undan og þá fjölgaði morðum á erlendum ferðamönnum um 29% á sama tímabili.