Það voru vísindamenn við Syddansk University í Danmörku sem gerðu rannsóknina og tóku 573.088 manns þátt í henni að því er segir á heimasíðu háskólans.
Fram kemur að þeir sem glíma við mikið heyrnartap séu í sérstaklega mikilli hættu á að þróa með sér elliglöp en það eru 20% meiri líkur á að þeir þrói með sér elliglöp miðað við þá sem ekki glíma við heyrnartap.
Jesper Hvass-Schmidt, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum og einn höfunda rannsóknarinnar, segir að heyrnartap geti stressað heilann og þetta stress getur aukið líkurnar á elliglöpum.
„Við vitum ekki hvort heyrnartapið sjálft getur verið orsök en við sjáum tengsl þar sem heyrnartap eykur líkurnar á elliglöpum,“ sagði hann.
Vísindamennirnir rannsökuðu gögn 573.088 manns á árunum 2003 til 2017. Allir þátttakendurnir voru eldri en fimmtugir og bjuggu í suðurhluta Danmerkur. Enginn þeirra glímdi við elliglöp áður en rannsóknin hófst.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að það er munur á þróun elliglapa eftir því hvort fólk notar heyrnartæki eða ekki. Reyndust vera 20% meiri líkur á að þeir sem ekki nota heyrnartæki þrói með sér elliglöp en þeir sem eru með eðlilega heyrn.
„Ef maður byrjar nægilega snemma að nota heyrnartæki, á meðan heilinn er í nokkuð góðu standi til að læra að nota heyrnartæki, þá teljum við að heyrnartæki geti átt þátt í að draga úr þessum auknu líkum,“ sagði Hvass-Schmidt.