Krufnin leiddi í ljós að hún hafði verið myrt en hins vegar var ekki vitað á þessum tíma af hvaða konu líkið var. En nú hefur tekist að bera kennsl á það með því að nota nýjustu og fullkomnustu aðferðir við rannsóknir á DNA.
Talið er að Gwenn hafi látist tæpum 24 klukkustundum áður en lík hennar fannst.
Sky News segir að Gwenn hafi verið nefnd „Sahara Sue Doe“ en það nafn er tilvísun í gatnamótin þar sem lík hennar fannst.
Lögreglan í Las Vegas sagði í fréttatilkynningu að framfarir í DNA-rannsóknum hafi leitt til þess að það tókst að bera kennsl á líkið.
Það var maður, sem var á göngu, sem fann líkið að kvöldi 14. ágúst 1979. Hár hennar var krullað og rautt naglalakk á öllum nöglum.
Ættingjar Gwenn segja að hún hafi farið að heiman snemma sumars til að leita að blóðföður sínum sem bjó í Kaliforníu. Hún ferðaðist með tveimur vinum sínum, karlmönnum. Fjölskylda hennar heyrði aldrei aftur frá henni.
Þegar vinir hennar komu heim aftur í ágúst, sama mánuði sem lík hennar fannst, sögðu þeir fjölskyldu hennar að þeir hafi skilið við hana í Las Vegas.
Lögreglan segir að nú beinist rannsóknin að þessum tveimur vinum og af hverju Gwenn hafi endað látin í Las Vegas.