Árið 1954, þegar hún var um þriggja ára gömul, voru Barbara Lane og fimm systur hennar, Kay, Bobby, Mickey, Vickey og Annie, yfirgefnar á heimili þeirra af móður þeirra, systurnar voru í kjölfarið sendar á St. Dominic’s munaðarleysingjahælið í St. Louis í Bandaríkjunum.
Á þessum tíma voru tvær elstu systurnar, Ruth og Ellen, giftar og bjuggu annars staðar á meðan enn önnur systir, Bernie, var ekki heima þegar félagsráðgjafar komu á staðinn. Barbara komst síðar að því að móðir þeirra, sem tók aðra yngri systur Barböru, Pam, með sér þegar hún skildi systrahópinn eftir, fæddi enn eina dóttur, Cindy, eftir að sex dætrum hennar var komið fyrir á munaðarleysingjahæli.
Ótrúleg saga systrahópsins stóra er umfjöllunarefni People, og segir Barbara þegar hún rifjar upp dvöl sína á munaðarleysingjaheimilinu að hún hafi verið þokkaleg vegna þess að systur hennar voru hjá henni. Systurnar áttu stuttan tíma saman á munaðarleysingjahælinu þar sem þær voru fljótlega aðskildar og fluttu til að búa hjá fósturfjölskyldum sínum.
„Ég man að ég horfði á systur mínar fara eina af annarri og það var áfall í hvert sinn,“ segir Barbara. „Ég vissi ekki hvert þær voru að fara, ég vissi bara að þær kæmu ekki aftur.“
Barbara og Kay, fjögurra og sex ára, fóru saman í fóstur til karlmanns sem Barbara fullyrðir að hafi haft tengsl við skipulagða glæpastarfsemi, og eiginkonu hans. Hjónin ættleiddu síðar systurnar tvær þegar þær náðu 16 ára aldri. „Daginn sem okkur var komið fyrir á þessu heimili vissi ég að eitthvað var ekki í lagi,“ segir Barbara.
Í bók hennar, Broken Water, sem Barbara skrifaði og gaf út í maí árið 2023, fullyrðir hún að systurnar hafi verið beittar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hendi fósturföður síns. Fjölskyldan hafi búið í litlu tveggja svefnherbergja húsi og því hafi ofbeldið ekki átt að hafa farið framhjá fósturmóður hennar. Barbara heldur því einnig fram að þeim hafi ekki verið leyft að fara að heiman nema til að mæta í skóla og kaupa matvörur og að þeim hafi jafnvel verið bannað að tala um aðrar systur sínar. Segir Barbara að þegar hún hafi verið orðið 14 ára hafi hún manað fósturföður sinn að skjóta hana með byssu sem hann bar á sér. „Hann var skíthræddur og lét mig í friði í nokkurn tíma eftir það atvik.“
19 ára giftist Barbara æskuástinni sinni, Jim, og eignuðust þau þrjú börn. Fjölskyldan flutti síðar frá St Louis til Maryland, þar sem Barbara útskrifaðist frá háskólanum í Maryland. Á fullorðinsárum leitaði hún sér meðferðar við áföllum sínum og varð hún síðar talsmaður barna, kennari og ráðgjafi.
Eftir andlát fósturmóður sinnar árið 1992 ákvað Barbara að leita að systrum sínum níu sem hún hafði ekki hitt frá barnæsku. Hóf hún að fara í gegnum ættleiðingarskrár, kaþólsk góðgerðarsamtök og réð einkaspæjara. Allar þessar tilraunir reyndust þó árangurslausar, en Barbara hélt í vonina. Það kom síðar í ljós að systur Barböru voru einnig að leita að henni og Kay. Ein af elstu systrunum, Ellen, átti gamla mynd af Barböru og Kay, sem börn með fósturforeldrum sínum, sem birt var í staðardagblaði í St. Louis. Með greinina til aðstoðar gat hún að lokum fundið símanúmer Kay.
Sumarið 1997 eftir sólríkan dag á ströndinn kom Barbara heim og eiginmaður rétti henni miða, með símanúmerum tveggja systra hennar, Ellen og Bernie. Eftir að hafa hringt í þær flaug Barbara til St. Louis þar sem hún og Kay hittu aðrar systur sínar á tilfinningaríkum endurfundi. „Ég held að ég hafi verið í hálfgerðu sjokki. Ég bókstaflega kastaði mér í fangið á þeim. Ég þekkti lyktina af þeim. Snerting þeirra var kunnugleg. Augu þeirra voru eins. Ég er komin heim,“ man Barbara að hún hugsaði með sjálfri sér. Árið 2005 byrjaði Barbara að skrifa æviminningar sínar, bókina Broken Water, ferli sem tók 18 ár. Í gegnum endurminningar systra sinna lærði hún um reynslu þeirra sem og líffræðilegra foreldra sinna.
„Meirihluti okkar systranna var aðskilin í 43 ár. Það leið nokkur tími þar til við fórum að rifja upp æskuár okkar og fyrri sögu. Síðan sagði ein systir mín: „Barbara, myndirðu skrifa bók um okkur.“
Eftir endurfundina árið 1997 eru fimm systranna látnar, Mickey, Vickey, Bernie, Annie og Ellen. En þær sem eftir lifa halda góðu sambandi. „Þegar við komum saman verðum við eins og lítil börn. Ég er virkilega heppin og þakklát,“ segir Barbara.