Live Science segir að Wollemi-furan (Wollemia nobilis) sé kölluð lifandi-steingervingur af sumum. Hún er næstum algjörlega eins og leifar af slíku tré frá krítartímabilinu, sem var fyrir 145 til 66 milljónum ára.
Aðeins 60 slík tré vaxa villt í náttúrunni og eru þau í hættu vegna gróðurelda sem gjósa öðru hvoru upp á svæðinu.
Nú hafa vísindamenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum og Ítalíu lesið genamengi furunnar og þannig varpað ljósi á einstaka þróun hennar og hvernig hún fjölgar sér. Þessi vitneskja kemur að gagni við það verkefni að varðveita tegundina. Rannsóknin hefur verið birt á bioRxiv en hefur ekki verið ritrýnd.
Furan er með 26 litninga sem samanstanda af 12.2 milljörðum basapara. Til samanburðar má nefna að fólk er aðeins með 3 milljarða basapara. En þrátt fyrir þennan mikla fjölda basapara þá er Wollemi-furan mjög fábreytt hvað varðar erfðafræðilega fjölbreytni. Það bendir til að tegundin hafi lent í vanda fyrir 10.000 til 26.000 árum þegar trjánum fækkaði mjög mikið.
Trén skiptast ekki mikið á erfðaefni og virðist sem þau tré sem enn lifa fjölgi sér aðallega með því að klóna sig sjálf.