Vætustjörnurnar eru um 150 ljósár frá jörðinni sem er örstutt þegar horft er til vegalengda í geimnum.
Live Science segir að í rannsókninni, sem hefur verið birt í vísindaritinu Monthly Notices of the Royal Astronomical Society, hafi stjörnufræðingar kafað ofan í sögu Vætustjarnanna sem eru sú stjörnuþyrping sem er næst jörðinni. Þar eru mörg hundruð stjörnur á svipuðum aldri, svipaðar að efnafræðilegri samsetningu og hreyfast svipað.
Með því að nota gögn frá Gaia gervihnetti Evrópsku geimferðastofnunarinnar gerðu stjörnufræðingarnir hermilíkan af þróun stjörnuþyrpingarinnar. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að besta skýringin á núverandi staðsetningu stjarnanna sé að tvö eða þrjú lítil svarthol leynist í miðri þyrpingunni. Þau hafi áhrif á hreyfingar stjarnanna vegna hins gríðarlega þyngdarafls sem þau búa yfir.
Ef þetta er rétt, þá eru þessi svarthol þau svarthol sem eru næst jörðinni en Vætustjörnuþyrpingin er í aðeins 150 ljósára fjarlægð eða 10 sinnum nær en Gaia BH1 svartholið sem er í um 1.500 ljósára fjarlægð og hefur verið talið það svarthol sem er næst jörðinni.