Konan var á þrítugs eða fertugsaldri og frá Suður-Kóreu. Lík hennar fannst í skotti bifreiðar, sem var lagt við vinsælt suðurkóreskt baðhús í Duluth, sem er um 35 km norðan við Atlanta. Líkið vóg aðeins um 35 kg. CNN segir að samkvæmt tölum frá bandarísku hagstofunni sé um fjórðungur íbúa Duluth af asísku bergi brotinn.
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar er að vannæring hafi átt hlut að máli varðandi dauða konunnar en enn hefur ekki verið skorið endanlega úr um dánarorsökina.
Talið er að konan hafi verið barin og svelt vikum saman. Lögreglan telur að konan hafi flutt til Bandaríkjanna frá Suður-Kóreu í sumar til að „ganga í trúarhóp“.
Eric Hyun, 26 ára meðlimur í trúarhópnum, lagði bíl sínum í stæði við suðurkóreska baðhúsið og fékk ættingja sinn til að sækja sig að sögn lögreglunnar. Hann bað síðan ættingja sinn um að sækja ákveðinn hlut í bifreiðina. Það gerði ættinginn og fann þá lík konunnar í skottinu og hringdi í neyðarlínuna.
Í framhaldi af líkfundinum gerði lögreglan húsleit heima hjá Hyun. Telur hún að konunni hafi verið haldið þar þar til hún lést og hafi hún sætt barsmíðum og verið svelt. Lögreglan hefur ekki skýrt frá því hvenær talið er sé að konan hafi látist.