Listin er margslungin og sýning sem opnar í The Royal Academy í London á laugardag fyrir almenning hefur skapað mikla umræðu. Það er þó ekki bara sýningin sjálf sem hefur fengið fólk vil að velta vöngum, heldur einning inngangurinn. Sýningin sem um ræðir er sýning listakonunnar Marina Abramović, Imponderabilia, en þriggja daga foropnun fyrir boðsgesti hófst í gær.
Þegar kemur að innganginum þarftu að troða þér á milli naktrar konu og nakins karlmanns, skipt um er um nöktu einstaklingana reglulega og munu alls 42 einstaklingar skipta þessu hlutverki á milli sín og fá sumir þeirra leiðbeiningar frá listakonunni sjálfri á undan. Fyrir þá sem vilja alls ekki nota þennan aðalinngang á sýninguna þá er einning hefðbundinn inngangur í boði, en listasafnið mælir með að gestir troði sér milli nakta parsins til að upplifa sýninguna til fulls.
Andrea Tarsia sýningarstjóri RA segir sýninguna neyða fólk til að horfast í augu við „nekt, kynin, kynhneigðina, löngunina“. Á sýningunni má meðal annars finna verk eins og Luminosity sem sýnir nakta konu sitjandi á reiðhjólahnakki hengda og krossfesta.
Margar öryggisráðstafanir eru í gangi bæði til að vernda listamanninn, nöktu módelin og gest. Auk 16 ára aldurstakmarks eru allar myndatökur, hljóðupptökur og beinar upptökur bannaðar.
Gestir eru einnig varaðir við því að snerta módelin með óviðeigandi snertingu eða hegðun, og er starfsfólk gallerísins nálægt ef einhver vandamál koma upp. Abramović hefur einnig séð til þess að læknir, sálfræðingur og næringarfræðingur séu í viðbragðsstöðu meðan á sýningunni stendur, en hún er opin til 1. janúar.
Árið 1974 sýndi listakonan verk af svipuðum toga, Rhythm 0, þar sem gestir gátu átt frjáls samskipti við hana og notað 72 hluti í hennar eigu eins og þeir vildu. Sýningin fór friðsamlega af stað en stigmagnaðist fljótt og sumir sýningargesta beittu Abramović ofbeldi. Einn þeirra skar hana á háls með skurðarhnífi.
Næstum fimm áratugum síðar vill listakonan sem orðin er 78 ára tryggja að módelin á núverandi sýningu lendi ekki í sömu aðstæðum. „Þau búa yfir þekkingu sem ég hafði ekki á þeim tíma. En þau eru frábærir flytjendur, fólk sem ég treysti.“