Þetta gerðist eftir að pýramída laga massi sást á gervihnattarmyndum sem voru teknar af suðurhluta Ellsworth fjallgarðsins.
Eins og flestir vita þá halda mörgæsir til á Suðurskautinu en þær eru auðvitað ekki þekktar fyrir arkitektúr og byggingarlist og því óhætt að útiloka þær sem þá sem reistu „pýramídann“. En þá er spurningunni ósvarað um hvernig pýramídinn varð til.
Á gervihnattarmyndunum sjást nokkrir undarlegir fjallstoppar á svæðinu og einn þeirra vakti sérstaka athygli því hann líkist stóra pýramídanum í Giza í Egyptalandi.
Þegar þetta fór á flug á Internetinu fóru margar samsæriskenningar af stað, ekki síst í ljósi þess að það er ekki auðvelt fyrir fólk að halda sig á Suðurskautinu og hvað þá að reisa pýramída þar.
Ein þeirra samsæriskenninga, sem fór á flug, gengur út á að menningarsamfélag, sem var uppi fyrir Syndaflóðið, hafi reist pýramída á Suðurskautinu og að fyrir um 10.000 árum hafi verið hlýtt á Suðurskautinu.
LadBible segir að samsæriskenningasmiðum til mikilla vonbrigða þá sé ljóst að hér sé ekki um pýramída að ræða. Þetta kom fram í spjalli jarðfræðiprófessorsins Eric Rignot við Live Science. Þrátt fyrir að svo sé að sjá á myndum að hér sé um pýramída að ræða þá sagði Rignot: „Þetta er einfaldlega fjall sem líkist pýramída.“