Bandaríkjamaðurinn John Edward Jones var sannkallaður ævintýramaður. Þegar hann var 26 ára hafði hann þegar upplifað meira en flestir ná að upplifa á ævinni. Hann þyrsti í að kanna heiminn og upplifa hann og það átti hann sameiginlegt með fjölskyldu sinni.
Það sem heillaði þau mest og dró til sín voru dimmir og óþekktir hellir. Fjölskyldan var dugleg við að heimsækja hella um allt landið og þeim mun erfiðari yfirferðar, þeim mun betra.
Þann 24. nóvember 2009 var komið að því að heimsækja Nutty Putty-hellinn í Utah. Hann uppgötvaðist 1960 og síðan þá hefur fjöldi ævintýrafólks lagt leið sína í hann. Raunar var hann svo vinsæll eitt sinn að 5.000 manns skoðuðu hann árlega. En hann er ekki hættulaus þvi margir hlutar hans eru svo þröngir að það er aðeins hægt að komast áfram en ekki aftur til baka. Þess utan var ekki enn búið að rannsaka alla ganga hellisins og hvað þá kortleggja þá.
Hugsanlega var það þetta sem heillaði fjölskylduna og dró hana niður í hellinn um klukkan 20 að kvöldi þennan örlagaríka dag.
Fjölskyldan hafði mikla reynslu af því að fara í hella og vissi að fólk átti ekki að vera eitt á ferð. Hún skipti sér því í tvennt. Börnin og nokkrir fullorðnir fóru í þann hluta hellisins sem er frekar auðveldur yfirferðar. Johan og bróðir hans fóru í hina áttina. Klukkustund síðar hófust vandræðin.
John vildi finna innganginn að svokölluðum „Fæðingargangi“ sem er þröngur stígur í hellinum og er hann þekktur fyrir að vera sérstaklega erfiður yfirferðar.
Eftir smávegis leit taldi John að inngangurinn væri beint fyrir framan hann og með fingrum og mjöðmum byrjaði hann að mjaka grönnum líkama sínu í gegnum opið. En á þessari sömu sekúndu áttaði hann sig á að hann hafði gert banvæn mistök.
Hann var ekki á leið í gegnum „Fæðingarganginn“. Hann hafði villst í hellakerfinu og var nú kominn inn á óþekkta leið sem var allt of þröng. Hann gat naumlega troðið líkamanum inn í 25×45 cm djúpa holuna en hann gat ekki bakkað út.
Hann sat sem sagt fastur og gat sér enga björg veitt. Þeim mun meira sem hann reyndi að koma líkamanum upp úr holunni, þeim mun fastari var hann. Það gerði þetta enn verra að höfuð hans vísaði niður.
Bróðir hans reyndi að losa hann með því að toga í þann hluta líkamans sem hann sá, fæturna. En Johan var pikkfastur 120 metra inni í hellinum og 30 metrum undir yfirborði jarðar.
Þegar björgunarmenn komu á staðinn hafði John verið fastur, með höfuðið niður á við, í þrjár og hálfa klukkustund.
Næsta sólarhringinn reyndu rúmlega 100 björgunarmenn að losa John. Fljótlega var komist að þeirri niðurstöðu að það væri kannski hægt með því að nota kaðal til að toga hann hægt og rólega út.
Í fyrstu leit út fyrir að þetta myndi heppnast. Það tókst að toga John hægt og rólega í átt að frelsinu. En þá dundu hörmungar yfir. Kaðallinn slitnaði og John endaði þar sem hann hafði verið, fastur í þröngri holunni. Klukkustundirnar á undan hafði líkami hans orðið fyrir svo miklum þrýstingi að ástand hans fór síversnandi. Hann gat næstum því ekki dregið andann. Þrýstingurinn var einfaldlega of mikill. Að lokum gafst líkaminn upp og John missti meðvitund og hætti að anda rétt fyrir miðnætti 25. nóvember.
Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi.
Í 28 klukkustundir var reynt að losa hann en án árangurs.
Líkamsleifar hans eru enn í hellinum því talið er að það muni kosta mannslíf að koma þeim út.
Viku eftir slysið var hellinum lokað og hann innsiglaður og lík John skilið eftir þar.