Stríðsherra Téténíu og dyggur bandamaður Vladimir Pútíns, Rússlandsforseta, liggur nú á gjörgæslu í lífshættu, samkvæmt upplýsingum frá úkraínsku leyniþjónustunni. Um er að ræða Ramzan Kadyrov sem hefur verið leiðtogi Téténíu síðan árið 2007. Hann hefur ekki farið leynt með stuðning sinn við stjórnvöld í Rússlandi eftir innlimun Krímskagans árið 2014 og hefur verið í framlínunni í innrás Rússa í Úkraínu undanfarið ár.
Kadyrov hefur jafnvel gengið svo langt að hvetja rússnesk stjórnvöld til að beita kjarnorkuvopnum gegn Úkraínu. Þessi húsbóndahollusta hefur aflað Kadyrov viðurnefninu „bölull Pútíns“ og hefur hann farið fyrir liðum Téténa í stríðinu og verið sakaður um mikið harðræði og mannréttindabrot.
„Það eru upplýsingar fyrir hendi að stríðsglæpamaðurinn Kadyrov sé illa haldinn – langvarandi veikindi hafa versnað og landað honum í lífshættu,“ sagði Andriy Yusov, talsmaður úkraínsku leyniþjónustunnar í samtali við miðilinn Obozrevatel í gær.
New York Post segir að veikindi Kadyrov hafi verið staðfest í mörgum áttum, en um er að ræða veikindi sem ekki eiga rætur að rekja til áverka eða meiðsla.
„Þetta eru ekki áverkar. Það eru smáatriði sem ekki eru komin á hreint, en hann er búinn að vera veikur lengi og við erum að tala um krónískan heilsubrest. Hann hefur verið í alvarlegu ástandi síðustu daganna.“
Sú saga hefur gengið að Kadyrov glími meðal annars við nýrnabilun eftir mikla neyslu á ávana- og fíkniefnum. Aðrir telja þó veikindin mega rekja til eitrunar.