Anastasia De Brauwere Brozler var með nánast óaðfinnanlegt lyktarskyn eftir áralangt starf í ilmvatnaiðnaðinum. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að lyktarskynið var líka orðið óvenju næmt og því var stöðugur óþefur á heimili hennar í Kensington-hverfi í London að gera út af við hana. Um var að ræða einskonar skólplykt og mánuðum saman reyndi Anastasia að finna út hvað væri að valda lyktinni sem virtist koma frá verönd hússins. Hún gat vart opnað dyr eða glugga sem sneri að veröndinni þá gaus óþefurinn upp.
Anastasia, sem fædd er í Belgíu, var sérstaklega áhyggjufull því á heimili hennar var mikið af rándýrum ilmkjarnaolíum sem hún notaði við starf sitt og hún óttaðist að óþefurinn myndi spilla þeim.
Að endingu fékk hún aðgang að öryggismyndavél í götunni og þá kom sannleikurinn í ljós. Nágranni hennar á efri hæðinni, hin 81 árs gamla Janine Mackinlay, sást þar hella ótilgreindum vökva af svölum íbúðar sinnar og niður á veröndina og það stundum þrisvar sinnum á dag. Við nánari skoðun kom í ljós að um þvag gömlu konunnar var að ræða.
Þegar Anastasia og eiginmaður hennar gengu á frú Macinklay brást hún hin versta við, bölvaði þeim í sand og ösku og sagði þeim að snáfa aftur til heimalands síns.
Í kjölfarið kærðu hjónin frú Mackinlay fyrir áreiti og að hafa valdið skemmdum á eign þeirra. Vöktu réttarhöldin nokkra athygli í Bretlandi en þar gekkst gamla konan við því að hella þvagi sínu fram af svölum heimilisins en ástæðan væri sú að vegna verkja gæti hún ekki alltaf gengið upp á efri hæð heimili síns til þess að kasta af sér vatni. Þess í stað létti hún af sér í könnu og losaði sig við innihaldið út í garð.
Dómarinn í málinu féllst ekki á þessa skýringu og frú Mackinlay var dæmd fyrir að áreita hin vellyktandi hjón. Var hún dæmd til að greiða sekt sem og skaðabætur vegna skemmda á lóð hjónanna. Þá var gömlu konunni gert að sæta 12 mánaða nálgunarbanni gagnvart nágrönnum sínum.