fbpx
Fimmtudagur 01.júní 2023
Pressan

Stjórnmálaforinginn sem var ákærður fyrir samsæri um að myrða fyrrverandi kærasta sinn

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 19. maí 2023 22:00

Jeremy Thorpe og fyrri kona hans Caroline/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jeremy Thorpe fæddist árið 1929 í höfuðborg Bretlands, London. Fjölskylda hans tilheyrði efri lögum bresks samfélags. Bæði faðir hans og afi voru þingmenn fyrir Íhaldsflokkinn. Thorpe hlaut nokkuð verndað uppeldi og eins og títt er um börn bresku efri stéttarinnar var hann að miklu leyti í umsjá barnfóstra.

Þegar hann var orðinn 18 ára fékk Thorpe inngöngu í Oxford-háskóla og lagði þar stund á laganám. Hann vakti mikla athygli í skólanum fyrir framgöngu sína sem þótti á köflum nokkuð skrautleg. Á námsárunum fór áhugi Thorpe á stjórnmálum vaxandi. Hann varð virkur í stjórnmálastarfi en ekki á vegum Íhaldsflokksins heldur Frálslynda flokksins. Daginn sem hann varð 21 árs óskaði Thorpe eftir því að vera settur á lista flokksins yfir mögulega frambjóðendur í næstu kosningum til þingsins í Westminster.

Meðal vina fjölskyldu Thorpe var David Lloyd George og fjölskylda hans. Lloyd var forsætisráðherra Bretlands, fyrir Frjálslynda flokkinn, frá 1916-1922. Hann var síðasti forsætisráðherrann úr röðum flokksins. Þegar Thorpe gekk til liðs við flokkinn hafði fylgi hans minnkað verulega og var langt frá því sem var á mektarárunum á seinni hluta nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu.

David Lloyd George

Samnemendur Thorpe urðu ekki varir við að hann ætti sér ástalíf og leitt er að því líkum að þeir hafi almennt talið hann vera eikynhneigðan.

Stjórnmálaferilinn hefst

Að laganáminu loknu hóf Thorpe þegar í stað leit að vænlegu kjördæmi til að bjóða sig fram í. Þótt fylgi Frjálslynda flokksins væri orðið sáralítið hélt hann fast við að bjóða sig fram fyrir hann. Hann bauð sig fyrst fram í þingkosningunum 1955 en náði ekki kjöri. Hann tók þá til að starfa sem lögmaður og fréttamaður. Síðarnefnda starfið færði honum nokkra frægð en það sem flest fólk vissi almennt ekki var að hann átti í kynferðislegu samneyti við karlmenn sem á þessum árum var ólöglegt í Bretlandi.

Hann náði loks kjöri á þing 1959.

Árið 1967 náði Thorpe síðan kjöri sem leiðtogi flokksins eftir að forveri hans óskaði eftir að stíga til hliðar. Í upphafi var leiðtogatíðin stormasöm og aðeins ári eftir að hann tók við var reynt að koma honum frá á meðan hann var í brúðkaupsferð. Það tókst hins vegar ekki og Thorpe hélt leiðtogasætinu.

Þegar kom fram á áttunda áratuginn fór gæfa Frjálslynda flokksins vaxandi. Efnahagsástandið í Bretlandi var erfitt og vinsældir bæði Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins fóru minnkandi. Í kosningunum 1974 fékk Frjálslyndi flokkurinn mesta fylgi sitt síðan 1929, 19,3 prósent atkvæða, en breska kosningakerfið tryggði það að flokkurinn fékk mun lægra hlutfall af heildarfjölda þingsæta en heildarfjölda atkvæða á landsvísu. Enginn flokkur náði meirihluta í þessum kosningum en leiðtogi Íhaldsflokksins og sitjandi forsætisráðherra, Edward Heath, reyndi að fá Thorpe til að mynda samsteypustjórn. Þeir náðu hins vegar ekki samkomulagi.

Örlagaríkt samband

Eiginkona Thorpe lést í bílslysi 1970 en hann kvæntist á ný 1973. Svo virðist sem að hann hafi látið af kynferðislegu samneyti við karlmenn eftir að hann gekk í hjónaband. Lögreglan og leyniþjónustan, MI-5, voru þó vel meðvituð um að hann hefði tekið þátt í því. Maður að nafni Norman Scott var farinn að breiða það út að hann og Thorpe hefðu átt í kynferðislegu sambandi á sjöunda áratugnum. Thorpe taldi Scott ógna stjórnmálaferli sínum. Hann sagði að þeir hefðu verið vinir en ekki átt neitt kynferðislegt samneyti. Sagði Scott fólki að Thorpe hefði komið illa fram við sig. Hann reyndi að selja fjölmiðlum sögu sína en þeir höfðu ekki áhuga.

Norman Scott/BBC

Thorpe og samstarfsmaður hans útveguðu fé sem rann á endanum til Andrew nokkurs Newton. Newton þessi gerði árið 1975 misheppnaða tilraun til að myrða Scott með því að skjóta hann en náði aðeins að bana hundinum hans. Newton var ákærður og í réttarhöldunum bendlaði Scott Thorpe við málið en Newton neitaði að leiðtogi Frjálslynda flokksins hefði nokkuð haft með morðtilraunina að gera. Thorpe harðneitaði einnig og sagði að það fé sem hann útvegaði hefði verið nýtt til að greiða ýmsan kostnað fyrir flokkinn.

Fjölmiðlar voru hins vegar orðnir uppfullir af fréttum af málinu og það var farið að hafa áhrif á fylgi flokksins. Thorpe sagði loks af sér leiðtogaembættinu 1976.

Ákæra

Samstarfsmaður Thorpe leysti loks frá skjóðunni í viðtölum við blaðamenn. Sama gerði Andrew Newton þegar hann losnaði úr fangelsi. Þeir sökuðu báðir Thorpe um að eiga fullan þátt í samsærinu um að myrða Scott.

Thorpe var loks ákærður, ásamt þremur öðrum samstarfsmönnum, fyrir samsæri um að fremja morð. Hann sagði þó ekki af sér þingmennsku. Réttarhöldin hófust 1979 á svipuðum tíma og þingkosningar. Thorpe bauð sig aftur fram en náði ekki endurkjöri.

Málarekstur saksóknara byggðist aðallega á vitnisburðum, m.a. Norman Scott og Andrew Newton. Trúverðugleiki þeirra þótti ekki mikill og svo fór að Jeremy Thorpe og aðrir hinna ákærðu voru sýknaðir.

Þrátt fyrir sýknuna var Thorpe enn tortryggður m.a. vegna þess að hann bar ekki vitni í þágu málsvarnar sinnar. Thorpe var það sem eftir var ævinnar ágætlega virkur í breskri þjóðmálaumræðu. Hann reyndi að hasla sér einhvern völl í stjórnmálum en var loks útnefndur heiðursforseti fyrir Frjálslynda demókrataflokkinn í gamla kjördæminu sínu. Sá flokkur varð til 1987 þegar Frjálslyndi flokkurinn og klofningsframboð úr Verkamannaflokknum, Sósíaldemókratar, sameinuðust.

Í endurminningum sínum neitaði Jeremy Thorpe enn á ný að hann hefði haft nokkuð með tilraunina til að myrða Norman Scott að gera. BBC gerði leikna þriggja þátta röð um málið, árið 2018, sem bar titilinn A Very English Scandal og var byggð á samnefndri bók. Þar fór leikarinn góðkunni Hugh Grant með hlutverk Thorpe.

Jeremy Thorpe lést árið 2014.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Lamaður maður gengur aftur að tilstuðlan brautryðjandi uppgötvunar á sviði gervigreindar

Lamaður maður gengur aftur að tilstuðlan brautryðjandi uppgötvunar á sviði gervigreindar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Táningsstúlka myrt á almannafæri

Táningsstúlka myrt á almannafæri
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nútímamenn eiga hugsanlega ættir að rekja til tveggja óskyldra tegunda manna sem mökuðust árþúsundum saman

Nútímamenn eiga hugsanlega ættir að rekja til tveggja óskyldra tegunda manna sem mökuðust árþúsundum saman
Pressan
Fyrir 4 dögum

Húsið er fullkomið að utanverðu – Þegar fólk sér inn í það vill það alls ekki kaupa það

Húsið er fullkomið að utanverðu – Þegar fólk sér inn í það vill það alls ekki kaupa það
Pressan
Fyrir 5 dögum

Af hverjum veikjumst við þegar við eigum frí?

Af hverjum veikjumst við þegar við eigum frí?
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vestrænt mataræði talið geta átt þátt í þróun Alzheimers

Vestrænt mataræði talið geta átt þátt í þróun Alzheimers