Fyrrum Bandaríkjaforseti, Ronald Reagan, hafði ætlað sér að lifa piparsveinalífi eftir skilnaðinn við fyrstu eiginkonu sína. Þessi áform viku þó út um gluggann út af óvæntri þungun. Þetta kemur fram í æviminningum Patti Davis, dóttur Reagan og seinni eiginkonu hans, Nancy Reagan.
„Ég á það til að efa það stórlega að mamma hafi orðið ólétt út af kæruleysi,“ skrifar Patti sem óbeint sakar móður sína um að hafa viljandi orðið þunguð til að þvinga Ronald í hjónaband.
Nancy hafði dreymt um frægð og frama í Hollywood en ekki borið erindi sem erfiði. Hún hafi því séð tækifæri á betra lífi þegar hún hitti Ronald, sem var þá búinn að skilja við fyrstu eiginkonu sína, Óskarsverðlaunaleikkonuna Jane Wyman.
Jane og Ronald voru gift í níu ár og áttu saman þrjú börn, en eitt þeirra hafði þó látið lífið skömmu eftir fæðingu. Eftir skilnaðinn ætlaði verðandi forsetinn sér að lifa piparsveinalífinu til fulls og hafði auk þess samið við fyrrum konu sína um að hann gengi ekki í hjónaband fyrr en hún hefði gert það. Ronald fannst ekkert erfitt að gera slíkt samkomulag enda ekkert að flýta sér í hnapphelduna að nýju.
Hann fór að slá sér upp með fallegum leikkonum og ætlaði ekki að festa ráð sitt á næstunni. Þá bauð Nancy sem hann hafði átt náið samneyti með, honum út að borða og tilkynnti honum að hún væri komin 8 vikur á leið með barn hans. Patti segir að faðir hennar hafi fengið áfall. Hann afsakaði sig, yfirgaf borðið þar sem hann og Nancy sátu til að hringja í fyrrum eiginkonu sína til að tilkynna henni að hann gæti því miður ekki virt samkomulag þeirra því Nancy væri þunguð og hann þyrfti því að giftast henni.
Patti segir að þetta hafi þó verið föður hennar þvert um geð. Ronald var Nancy ótrúr og sagði ástkonum sínum að Nancy hafi platað hann upp að altarinu. Nancy var á sama tíma ekki eiginkvenna best og mun hafa haldið framhjá Ronald með til dæmis sjálfum Frank Sinatra.
„Þegar fólk lítur til baka áttar það sig gjarnan á því að fjölskyldusaga þeirra er stærri, subbulegri og viðkvæmari en það hefur haldið,“ skrifar Patti og segist hafa fundið með sjálfri sér þörfina til að skrifa sannleikann um foreldra sína, föður sinn sem hún dýrkaði og móður sína sem hún átti ekki samleið með. Heimilislífið var stormasamt, en Patti og Nancy samdi illa og lenti gjarnan saman. Móðir hennar var ströng, köld, stíf og stjórnaði heimilinu með járnaga. Faðir hennar var þó blíður og áttu feðginin fallegt samband
Nancy hafi fyrirlitið þá staðreynd að Ronald hafði áður verið giftur, og að hann ætti börn úr fyrra sambandi. Hún kom illa fram við stjúpbörn sín og vildi ekkert af þeim vita. Patti segist hafa upplifað mikinn og sáran einmanaleika sem varð til þess að hún glímdi við erfitt þunglyndi langt fram eftir aldri.
Frásögn Patti er í hróplegu misræmi við formlegu söguna sem hefur verið sögð af hjónabandi Ronald og Nancy. Almenningur var sannfærður um að þarna væru á ferðinni samheldin hjón, sem varla sáust saman án þess að haldast í hendur. Ronald var sagður ljóma þegar eiginkona hans steig inn í herbergið á meðan Nancy mændi á hann eins og ástfanginn unglingur. Nancy gaf síðar út ástarbréfin þeirra þar sem hún lýsti því hvernig þau skiptust í gegnum hjónaband sitt á bréfum með eldheitum ástarjátningum.
„Það er ekki nóg að segjast elska þig, ég er ekki heil án þín. Þú ert lífið sjálft. Þegar þú ferð þá bíð ég þess að þú snúir til baka svo ég megi byrja að lifa að nýju,“ sagði í einu Ronalds til Nancy en hún lýsti því svo að ef annað þeirra fór út úr herberginu þá hafi þau bæði verið einmana. Fólk trúi þessu ekki en þetta sé sannleikurinn. Þau hafi gert hvort annað heil, en í þeirra augum væri það skilgreining þess að vera gift.