Þessari spurningu var nýlega varpað fram á vef Live Science og svara leitað. Fram kemur að það verði að teljast mjög ólíklegt að fólk geti dáið úr hlátri en það sé þó ekki útilokað, svona tæknilega séð.
Læknar, sem rætt var við, sögðu að hlátur geti á nokkra vegu haft neikvæð áhrif á líkamann. Einn viðkvæmasti punkturinn er hjartað. Í mjög sjaldgæfum tilfellum getur hjartanlegur hlátur valdið því sem kallað er „laughter-induced syncope“ en þetta veldur því að blóðþrýstingurinn fellur hratt þegar hlegið er ýktum hlátri. Þetta veldur hörðum viðbrögðum í taugakerfinu sem aftur veldur því að blóðflæði til heilans dregst saman og það getur valdið meðvitundarleysi.
Þetta ætti í sjálfu sér ekki að verða fólki að bana en getur fræðilega séð orsakað hjartaáfall og einnig getur fólk dottið og lent á höfðinu, dottið niður stiga eða af brautarpalli og fyrir lest og látist. En teljst verður mjög ólíklegt að hlutir af þessu tagi gerist.
Hlátur getur haft áhrif á það loftmagn sem berst til hjartans, lungna og heilans og valdið einhverskonar astma sem getur í alvarlegum tilfellum orðið fólki að bana, til dæmis ef það hefur ekki aðgang að pústi.