Jótlandspósturinn skýrir frá þessu og segir að þessir áhættuþættir séu hreyfingarleysi, of hár blóðþrýstingur, heyrnartap og ofþyngd.
„Besta ráðið frá mér er að einbeita sér að því að hreyfa sig, af því að það hefur áhrif á aðra áhættuþætti,“ sagði Kasper Jørgensen, aðalhöfundur rannsóknarinnar, í samtali við Jótlandspóstinn.
„Ef maður getur hreyft sig meira, dregur maður kannski úr hættunni á of háum blóðþrýstingi og mikilli ofþyngd. Með þessu getur maður slegið margar flugur í einu höggi,“ sagði hann.
Bente Klarluns, yfirlæknir og klínískur prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sagði að niðurstöður rannsóknarinnar komi ekki á óvart. „Það gerist margt í heilanum þegar við hreyfum okkur. Meðal annars losnar um ákveðið efni sem lætur drekasvæðið, sem er mikilvægt fyrir minnið, stækka,“ sagði hún.
Hún benti einnig á að hreyfing minnki æðakölkun og geti unnið gegn bólgum í líkamanum. „Maður sér að þeim mun meiri hreyfingu sem fólk stundar á miðri lífsleiðinni, þeim mun minni hætta er á að það þrói með sér elliglöp,“ sagði hún.
Heyrnartap er einnig áhættuþáttur en það er hægt að bregðast við honum með því að fá sér heyrnartæki. Jørgensen sagði að ekki sé vitað með vissu af hverju heyrnartap sé svona mikill áhættuþáttur en margar kenningar séu á lofti. Sú sem er algengust er að heyrnartap hafi í för með sér að fólk einangrist félagslega þegar það verður eldra. Þá missi það samband við umheiminn og fái ekki örvun af samskiptum við annað fólk en það þurfi það til að halda sér andlega fersku.