Sky News hefur eftir Samantha Burgess, aðstoðarforstjóra Copernicus (sem er loftslagsstofnun ESB) að þetta sé mikil hækkun og að þetta hafi verið mjög „öfgafullt“.
„Í október sáum við mjög mikil frávik í kjölfar fjögurra mánaða þar sem hitamet á heimsvísu voru slegin,“ sagði hún og bætti við: „Við getum sagt með nær fullri vissu að 2023 verði heitasta ár sögunnar en hitinn er núna 1,43 gráðum hærri en áður en iðnvæðingin hófst.“
Þetta eykur enn þrýstinginn á þjóðarleiðtoga um að setja metnaðarfull markmið á loftslagsráðstefnu SÞ, COP28, síðar í mánuðinum. Burgess sagði að aldrei hafi verið meiri þörf á að setja metnaðarfull markmið varðandi loftslagsmálin.
Meðalyfirborðshitinn í október var 1,7 gráðum hærri en að meðaltali í október á árunum 1850 til 1900 en það tímabil er skilgreint sem tíminn áður en iðnvæðingin hófst en þá byrjuðum við að nota jarðefnaeldsneyti.