Sky News skýrir frá þessu og segir að maðurinn, sem býr í New South Wales í Ástralíu, hafi talið að slangan væri ekki eitruð og hafi því tekið hana upp. Hún brást við með því að bíta hann. En hann lét það ekki aftra sér frá að taka hana með heim því hann taldi að bæði slangan og bitið væru meinlaus.
Þegar hann fór að kasta upp ótt og títt og höndin bólgnaði mikið áttaði hann sig á að eitthvað var að.
Slöngusérfræðingur bar kennsl á slönguna og í kjölfarið var hægt að gefa manninum viðeigandi móteitur. Slöngusérfræðingurinn, Ray McGibbon, sagði að maðurinn hafi verið heppinn að sleppa lifandi frá þessu því slöngur af þessari tegund geti auðveldlega banað fólki með eitri sínu.