Leif K-Brooks, stofnandi Omegle, sagði í yfirlýsingu að tilgangurinn með þjónustunni hafi verið að tengja fólk um allan heim saman og „byggja ofan á þá hluti sem ég elska við Internetið“. En síðan tók skuggahlið Internetsins þetta yfir bætti hann við og benti á að hægt sé að nota öll verkfæri á Internetinu til góðs og ills.
Hann sagði einnig að ekki sé hægt annað en að viðurkenna að einhverjir aðilar hafi misnotað þjónustuna, þar með til að fremja viðbjóðsleg glæpi.
Árum saman hefur þjónustan verið sökuð um að vera gróðrarstía barnakláms og annars óhugnanlegs myndefnis.
Fyrr í mánuðinum gerði Omegle sátt í máli þar sem fyrirtækið var sakað um að hafa tengt 11 ára notanda saman við kynferðisbrotamann.
BBC segir að Omegle hafi orðið mjög vinsælt þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar herjaði og að vefsíðan hafi verið nefnd í rúmlega 50 barnaníðsmálum síðasta árið.
Omegle var sett á laggirnar 2009 þegar Leif K-Brooks var aðeins 18 ára. Greiningarfyrirtækið Semrush segir að um 73 milljónir notenda hafi heimsótt síðuna í mánuði hverjum.