Á síðustu dögum hafa margir rætt um uppruna morgunkornsins á hinum ýmsu spjallvefum og samfélagsmiðlum. Færslur, sem voru birtar á Facebook og Twitter, fóru á mikið flug en í þeim var fólk hvatt til að spyrja Google af hverju Cornflakes var búið til og því sagt að það muni þakka höfundi færslunnar fyrir þetta.
Margir fóru því að grennslast fyrir ástæðunni fyrir uppruna Corn Flakes og kom niðurstaðan mörgum væntanlega mjög á óvart.
John Kellog, sálfræðingur og baráttumaður gegn kynlífi, er sagður hafa talið að með því að borða fjölbreytt fæði væri hægt að draga úr kynhvötinni. Af þessum sökum telja sumir að Corn Flakes, sem hann þróaði, hafi verið þróað til að koma í veg fyrir að fólk fyndi fyrir kynhvöt og til að koma í veg fyrir sjálfsfróun.
Þessi óvenjulega kenning hefur lengi verið á sveimi og var fjallað um hana í bókinni „Turned On: Science Sex and Robots“ þar sem því er haldið fram að Corn Flakes hafi verið þróað sem „lyf gegn sjálfsfróun“.
Starfsfólk snopes.com ákvað að kanna sannleiksgildi þessarar kenningar og er niðurstaðan að þetta sé að mestu rangt. Kellog hafi aldrei auglýst morgunkornið góða sem ætlað til þess að koma í veg fyrir sjálfsfróun. Þróun Corn Flakes hafi verið hluti af áhuga J.H. Kellogg á einföldu en fjölbreyttu mataræði.
„Án þess að vísa sérstaklega til Corn Flakes, þá mælti Kellog annars staðar með einföldu og fjölbreyttu mataræði sem einni nokkurra aðferða til að koma í veg fyrir sjálfsfróun,“ segir á snopes.com og síðan er bætt við: „Út frá aðgengilegum gögnum þá var Corn Flakes aðallega búið til sem auðmeltur, tilbúin og hollur morgunmatur, sérstaklega fyrir sjúkling á meðferðarstofnun Kellogg í Michigan. Varan var aldrei auglýst sem „morgunverður sem kemur í veg fyrir sjálfsfróun“.