En það var einmitt það sem gerðist í tilfelli Tim O´Sullivan sem bjó í bænum Mallow á Írlandi. Mallow er norðan við Cork á suðurhluta Írlands.
Í síðasta mánuði læddist sá grunur að meindýraeyðum í bænum að rottur héldu til í litlu húsi, sem enginn virtist búa í, því margir nágrannar höfðu séð rottur í garðinum.
Poul O´Donoghue, meindýraeyðir, neyddist til að brjóta útidyrnar upp til að komast inn í húsið. Anddyrið var fullt af dagblöðum og bréfum og þegar hann gekk inn í svefnherbergið „sá hann eitthvað undir sænginni í rúminu“ eins og hann lýsti þessu í samtali við Irish Mirror.
Hann kallaði á vinnufélaga sína og þegar þeir lýstu með vasaljósum á rúmið sáu þeir að beinagrind var undir sænginni. Þeir tilkynntu lögreglunni samstundis um málið og hófst hún samstundis handa við að rannsaka málið.
Eftir að hafa borið tennurnar í beinagrindinni saman við tannlæknaskýrslur lá ljóst fyrir að þetta voru leifarnar af eiganda hússins, fyrrnefndum Tim O´Sullivan. En næsta skrefið í rannsókninni var að komast að hversu langt var síðan hann lést.
Rannsóknin leiddi í ljós að hann hafði ekki sótt bætur sínar hjá félagsþjónustunni síðan í október 2000. Telur lögreglan því að hann hafi látist um það leyti.
En það er hulin ráðgáta af hverju enginn heimsótti eða saknaði hans í rúmlega 20 ár. Rannsóknin leiddi nefnilega í ljós að O´Sullivan, sem fæddist 1939, á yngri systkini á lífi sem og frænda.
Það þykir ekki minna undarlegt að einhver geti legið dáinn heima hjá sér í rúmlega 20 ár án þess að aðvörunarljós kvikni einhvers staðar í opinbera kerfinu eða að nágrönnunum finnist undarlegt að skyndilega sjáist nágranni þeirra aldrei.