Mynd sem rithöfundurinn og grínistinn Tessa Coates deildi á samfélagsmiðla var talin haldin illum öndum og líktu einhverjir netverja myndinni við atriði úr sjónvarpsþáttunum Black Mirror.
Eins og sjá má á myndinni stendur Coates á palli og er að máta brúðarkjól. Fyrir framan hana eru tveir stórir speglar og sýna þeir mismunandi spegilmynd.
„Ég fór að versla brúðarkjóla og efaðist um hvað væri raunverulegt. Þetta er alvöru mynd af mér, ekki photoshoppuð, ekki víðmynd, ekki myndband. Ef þú sérð ekkert athugavert við myndina, skoðaðu þá spegilmyndir mínar. Mér varð flökurt við að horfa á myndina,“ sagði Coates í myndbandi sem hún deildi á samfélagsmiðlum.
Coates sagði fylgjendum sínum að hún hefði farið í Apple verslun og beðið í tvær klukkustundir eftir að tala við tæknimann þar til að fá útskýringar á myndinni. „Meðan ég beið á neðri hæðinni þá sýndi ég sölumönnunum myndina af því ég var viss um einhver þeirra myndi átta sig á hvað vandamálið væri. Þess í stað vakti myndin óhug hjá þeim. Það var komin röð af starfsfólki hjá mér til að sjá myndina,“ segir Coates.
Tæknimaður að nafni Roger kom svo loksins aðvífandi og sagði að skýring væri á myndinni, þó hún væri kannski ekki einföld.
„Roger er augljóslega aðalmaðurinn. Hann horfði á myndina og sagði: „Allt í lagi, ég hef aldrei séð þetta svona slæmt eða svona skelfilegt, en það sem gerist er að iPhone er ekki myndavél, heldur tölva. Svo þegar iPhone tekur mynd þá tekur hann röð af myndasyrpu á mjög stuttum tíma. Semsagt hann tekur mynd frá vinstri til hægri og á þessu augnabliki lyftir þú höndunum, fyrst annarri og svo hinni. Síðan hefur gervigreindin tekið ákvörðun um að setja þessar myndir saman.“