Samkvæmt frétt People þá kemur fram í fréttatilkynningu frá þjóðgarðsyfirvöldum í Dauðadalnum að svissnesk hjón hafi verið á ferð um dalinn í húsbíl. Skyndilega hafi ökumaðurinn hemlað þegar hann sá tarantúlu ganga yfir veginn.
24 ára gamall Kanadamaður, sem ók mótorhjóli, ók þá á húsbílinn og slasaðist. Hann var fluttur á sjúkrahús. Svissnesku hjónin sluppu ómeidd.
Einnig kemur fram í fréttatilkynningunni að tarantúlan hafi sloppið ómeidd og eru ökumenn hvattir til að aka varlega því vegirnir í dalnum séu illa farnir eftir flóð og dýr af öllum stærðum séu á ferðinni.
Einnig kemur fram að tarantúlur séu hægfara og alls ekki árásargjarnar og að bit þeirra sé ekki hættulegt. Það jafnist á við stungu býflugu og verði ekki fólki að bana.
National Geographic segir að tarantúlur séu að meðaltali 2,75 cm að lengd og lifi í allt að 30 ár. Þær lifa aðallega á skordýrum en geta einnig veitt froska og mýs.