Flækingsköttur varð heldur betur lán í óláni, en kettinum tókst að gera hinn ólánsama Joshua Smith að milljónamæring.
Joshua rakst á flækingsköttinn Frank árið 2017 og ákvað að bjóða kettinum nýtt líf. Joshua bjó á þessum tíma í leiguhúsnæði fyrir fólk í bata frá fíknisjúkdóm. Tveimur árum síðar hvarf Frank.
Joshua vissi að kötturinn hefði ekki yfirgefið hann sjálfviljugur. Leigusalinn hans hefði tekið hann.
Leigusalinn gekkst við broti sínu og játaði að hafa tekið köttinn og látið kærustu sína koma honum í dýraathvarf. Þetta hafi hann mátt gera þar sem kötturinn væri í andstöðu við leigusamninginn.
Joshua ákvað að sætta sig ekki við þetta og stefndi leigusalanum fyrir dóm. Vanalega fer það svo í málum sem þessum að kviðdómur ákveður bætur til eiganda gæludýrs sem nemur raunverulegu virði hans. Frank var flækingsköttur svo varla gat virðið verið mikið.
Það hitti þó svo á í þessu máli að kviðdómur var greinilega fullur af kattavinum. Það tók kviðdóm aðeins tvær klukkustundir að komast að niðurstöðu. Leigusalinn skyldi fá að borga þjáningarbætur svo hann lærði sína lexíu. Taldi kviðdómur hæfilegar bætur vera 194 milljónir.
„Leigusalar ættu að taka skýr og ákveðin skilaboð kviðdóms til sín. Þeim ber að virða réttindi leigjenda, einkum hvað varðar gæludýr,“ sagði lögmaður Joshua eftir að niðurstaðan var opinberuð.
„Kemur á daginn að fólkið í kviðdóminum elskar dýr.“
Því miður fær Joshua köttinn ekki til baka. Í dýraathvarfinu kom í ljós að Frank var með örmerki og var honum skilað til upprunalegra eigenda.
Joshua er þó á góðum stað í dag. Honum tókst að halda sig á beinu brautinni, er í dag giftur og búinn að opna sína eigin rakarastofu. Hann segist þó feginn að hafa haldið áfram með málið, þar sem leigusalar eigi ekki að geta komist upp með svona framkomu.