Hversu lengi er hægt að þola ógnarástand á heimilinu? Hversu lengi er hægt að þola líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi áður en sagt er hingað og ekki lengra? Nágrannar unglingsins Ashlee Martinson veltu þessum spurningum upp eftir að unglingsstúlkan var handtekin og sakfelld fyrir að banað móður sinni og stjúpföður árið 2015. Þessari spurningu svaraði Ashlee ári síðar sjálf í viðtali þar sem hún sagðist loksins hafa fundið frelsið í fangelsi.
Þann 7. mars árið 2015 fundust Thomas Ayers og Jennifer Ayers látin á heimili sínu í Wisconsin. Thomas hafði verið skotinn í hausinn og háls, en Jennifer hafði verið stungin rúmlega 30 sinnum. Þrjú börn voru á heimilinu en höfðu ekki beðið skaða. Það voru þau sem höfðu samband við lögreglu og sögðu að eldri systir þeirra, Ashlee Martinson, hefði myrt foreldra þeirra og flúið að heiman. Ashlee hafði fagnað 17 ára afmæli sínu deginum áður.
Lögreglan lýsti eftir Ashlee og varaði vegfarendur við því að hún væri líklega vopnuð og hættuleg. Hún var á flótta með 22 ára kærasta sínum og tók það lögreglu ekki langan tíma að hafa hendur í hári þeirra.
Yngri systir Ashlee, 9 ára gömul, sagði lögreglu að hún hafi verið niðri þegar hún heyrði skothvelli. Móðir hennar hafi hlaupið á efri hæðina en ekki komið niður aftur. Yngri systirin ákvað að vitja móður sinnar og fór á eftir henni. Þá kom hún að móður sinni og Ashlee í slagsmálum. Ashlee skipaði systur sinni að fara aftur niður. Systirin hlýddi og skömmu síðar kom Ashlee niður og sagði yngri systrum sínum að þær ætluðu í leik. Hún læsti því næst systur sínar inni í herbergi með mat og drykk. Svo lét Ashlee sig hverfa.
Fljótlega eftir að Ashlee var handtekin komust fjölmiðlar á snoðir um blogg hennar. Um var að ræða hryllings blogg þar sem Ashlee kallaði sig „Vampchick“ og birti ljóð sem meðal annars fjölluðu um hrottaleg morð.
Þetta varð til þess að Ashlee var álitin skrímsli. Unglingur með myrkar kenndir sem hafði myrt fjölskyldu sína sér til skemmtunar. Degi fyrir morðin hafði Ashlee rifist við stjúpföður sinn sem var óánægður með að hún ætti kærasta sem væri fimm árum eldri en hún. Thomas og Jennifer tóku lyklana af dóttur sinni og farsímann og sendu kærastanum skilaboð um að halda sig fjarri. Svo sögðu þau Ashlee að nú yrði hún læst inni, fengi ekki lengur að mæta í skóla og mætti aldrei fara út.
Eftir að rifrildið var opinberað taldi almenningur sig hafa nokkuð góða mynd af aðstæðum. Hér var greinilega á ferlinni unglingur með morð á heilanum og ásetning til að refsa foreldrunum fyrir að setja mörk.
En annað kom á daginn. Ashlee hafði árum saman orðið fyrir hrottalegu ofbeldi á heimilinu og glímdi við alvarlegt þunglyndi og áfallastreituröskun. Morðin voru viðbragð við áralöngu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Móðir hennar hafði leyft fjölda karlmanna að misnota Ashlee allt frá því að hún var kornung. Stjúpfaðir hennar var engin undantekning og hafði misnotað Ashlee og yngri systur hennar.
Allar systurnar greindu frá því fyrir dómi að stjúpfaðir þeirra hafi verið skrímsli. Hann hýddi þær með belti, neyddi þær til að sjá um heimilið, myrti hvolpinn þeirra fyrir framan þær og svona mætti áfram telja. Móðir þeirra hafi ýmist setið aðgerðalaus hjá eða tekið þátt í ofbeldinu.
Nokkrum dögum fyrir morðin sendi Ashlee skilaboð á kærasta sinn og sagðist hafa vaknað við að stjúpfaðir hennar væri að berja mömmu hennar.
„Ég get þetta ekki lengur. Hann á eftir að drepa hana ef hún fer ekki frá honum og ég vil ekki vera hérna þegar það gerist. Mig langar svo innilega að drepa hann, bara taka eina byssuna hans og skjóta hann í hausinn.“
Ashlee lýsti því hvernig hún hafi fengið nóg þennan örlagaríka dag og skotið stjúpföður sinn.
„Ég fór með haglabyssuna inn í herbergi og sat á rúminu mínu. Þetta var búið spil fyrir mig. Ég var komin með nóg og ég þurfti að finna leið út úr þessum aðstæðum. Það var það eina sem var í boði. Ég var búin að stinga byssunni upp í munninn á mér og var við það að taka í gikkinn. Þetta var að verða búið. Þá heyrði ég í stjúpföður mínum, hann var að þramma upp stigann og á þeirri stundu vissi ég að ég vildi í raun og veru ekki deyja.“
Þegar móðir hennar kom að aðstæðum hljóp Ashlee til hennar í leit að stuðning og huggun. Þá réðst móðir hennar á hana og Ashlee svaraði fyrir sig.
Eftir handtökuna sagði Ashlee: „Ég er ekki skrímsli. Ég vildi ekki neitt af þessu. Ég vil að fólk viti að ég var þolandi í þessum aðstæðum. Það réttlætir ekki það sem ég gerði, en á þessari stundu þá fannst mér ég ekki hafa um neitt annað að velja.“
Ashlee játaði sök í málinu og var dæmd í 23 ára fangelsi. Dómari í málinu tók fram að þó svo að Ashlee hafi vissulega búið við hryllilegar aðstæður þá mætti ekki senda þau skilaboð út í samfélagið að slíkt réttlæti morð.
Nágranni Ashlee sagði eftir að refsing hennar var ákveðin að hér væri um of þungan dóm að ræða.
„Það sem hún þarf er aðstoð við að koma sér aftur á fæturna. Lífið á ekki að vera eins og það sem henni var úthlutað. Hún hefur átt erfitt líf. Mér verður illt í hjartanu“
Engu að síður hefur Ashlee loksins fundið hamingjuna, og það í fangelsi.
„Ég er hamingjusöm því ég fæ hjálp núna,“ sagði Ashlee í viðtali við Crime Watch Daily árið 2016. „Systur mínar eru öruggar. Ég veit að þetta hljómar galið því ég er í fangelsi, en mér finnst ég vera frjáls. Ég má hafa skoðanir núna. Ég get hugsað fyrir sjálfa mig. Ég get vaknað á hverjum degi vitandi að ég er örugg.“