En hvernig er hægt að hægja á því að bakteríur verði ónæmar fyrir sýklalyfjum? Þessari spurningu var varpað upp á vef Live Science og svarið er að sögn að draga úr misnotkun sýklalyfja en hún gerir að verkum að bakteríurnar þróa með sér ónæmi.
Þetta er hægt að gera með því að setja skýrar reglur um hvernig læknar ávísa sýklalyfjum og hvernig sjúklingar nota þau við mismunandi aðstæður, til dæmis á sjúkrahúsum og dvalarheimilum. Auk þess þarf að fylgjast vel með hvernig þau eru notuð. Þetta segir bandaríska smitsjúkdómastofnunin CDC.
Markmiðið er að koma í veg fyrir að læknar ávísi sýklalyfjum gegn almennum sýkingum sem lyfin gera ekkert gagn gegn sem og að koma í veg fyrir að þeir gefi sjúklingum „víðtæk“ sýklalyf sem geta drepið margar bakteríur þegar það nægir að nota sýklalyf sem tekst aðeins á við ákveðnar bakteríur.