Ekki er vitað um uppruna þessara merkja en sumir telja að þetta séu merki frá vitsmunaverum sem séu að reyna að komast í samband við okkur. Aðrir telja að þetta sé af völdum segulstjarna en það eru ofurþéttar stjörnur með ótrúlega sterkt segulsvið. Þær senda frá sér útvarpsbylgjur þegar þær snúast um sjálfar sig á gríðarlega miklum hraða.
Eitt af nýjustu FRB-merkjunum hefur fengið hið þjála heiti FRB 20220110A. Það voru stjörnufræðingar sem uppgötvuðu það í júní á síðasta ári þegar þeir notuðu ASKAP útvarpssjónaukann í Ástralíu við rannsóknir sínar. Þeir vita ekki nákvæmlega hver uppruni merkisins er en segja að það hafi borist frá svæði þar sem tvær eða þrjár vetrarbrautir eru að renna saman. Þetta styður aðra kenningu um uppruna FRB.
Metro segir að rannsóknin hafi verið birt í vísindaritinu Science og staðfesti að hægt sé að nota FRB til að „vigta“ alheiminn. Ryan Shannon, prófessor og aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að ef allt venjulegt efni í alheiminum sé talið, atómin sem við erum öll búin til úr, komi í ljós að það vanti rúmlega helming þess sem ætti að vera til.
Hann sagði að vísindamennirnir telji að þetta efni sé í felum á svæðum á milli vetrarbrauta en það sé hugsanlega svo heitt og dreift að útilokað sé að sjá það með hefðbundnum aðferðum. FRB nemi þetta jónaða efni og jafnvel í næstum algjörlega tómum geimnum geti það „séð“ allar rafeindirnar og þannig gert vísindamönnum kleift að mæla hversu mikið er af þeim á milli vetrarbrauta.