Þegar bygging hótelsins hófst þótti það merki um metnað og dramb Norður-Kóreumanna.
Hótelið sker sig svo sannarlega úr í miðborginni og varpar skugga, sem mörgum þykir minna á eitthvað úr geimmyndum, yfir borgina. Byggingin sjálf þykir minna á sviðsmynd í vísindaskáldsögu. Hún er 330 metrar á hæð.
Upphaflega stóð til að hótelið myndi opna 1989 og ef svo hefði farið hefði þetta verið hæsta hótel í heimi. En þess í stað hefur það fengið hinn vafasama titil sem hæsta mannlausa byggingin í heiminum.
Ekki varð af opnuninni 1989 og 1992 stöðvaðist verkið algjörlega þegar Sovétríkin hrundu en þá lenti Norður-Kórea í mikilli efnahagskreppu. Ekkert gerðist þar til 2008 þegar egypska fyrirtækið Orascom tók við verkefninu og ætlaði að ljúka við byggingu þessa 3.000 herbergja hótels.
Þremur árum síðar gerðist loksins eitthvað en þá var glertöflum komið fyrir framan við bygginguna. Embættismenn sögðu þá að hótelið yrði opnað 2012. Síðan var opnuninni frestað til 2013. Það hefur síðan ekki komið neinum á óvart að opnuninni hefur verið frestað hvað eftir annað.
Það síðast sem var gert tengt hótelinu var að fyrir fimm árum var ljósaskilti komið fyrir utan á því til að varpa áróðri frá einræðisstjórninni yfir borgina.