Maðurinn hafði stundað það að snæða á veitingastöðum á Alicante en þegar kom að því að gera upp vildi svo ótrúlega til að hann fékk alltaf „hjartaáfall“.
Insider skýrir frá þessu og segir að í tuttugasta sinn hafi þetta mistekist hjá honum. Hann snæddi þá á veitingastaðnum El Buen Corner. Þar pantaði hann paella og tvö glös af viskí. Reikningur hljóðaði upp á sem nemur um 5.000 íslenskum krónum.
En maðurinn tók hvorki upp greiðslukort né peninga til að gera upp og reyndi að komast út. En þjónarnir stöðvuðu hann og lögðu engan trúnað á sögu mannsins um að hann ætlaði að sækja peninga upp á hótelherbergið sitt.
Þá greip hann til þess ráðs, sem oftar, að þykjast fá hjartaáfall og lét sig hrynja í gólfið. En starfsfólkið lét ekki blekkjast og hringdi í lögregluna en ekki sjúkrabíl. Þetta reyndist góð ákvörðun því lögreglumennirnir báru strax kennsl á manninn og handtóku hann.