Ofneysla fentanyls hefur dregið mörg hundruð þúsund manns til bana og í fyrra er talið að 107 manns hafi látist í Bandaríkjunum eftir að hafa tekið of stóran skammt af lyfinu.
Wall Street Journal greinir frá því að Sinaloa-samtökunum hafi verið fúlasta alvara þegar borðunum var komið upp fyrr á þessu ári.
Blaðið ræðir við fyrrverandi fíkniefnaframleiðanda hjá samtökunum sem framleiddi fentanyl en hætti því. Hann kveðst vita um minnst fimm einstaklinga sem virtu bannið að vettugi og guldu fyrir það með lífi sínu.
Þá segir Miguel Angel Murillo, mannréttindafrömuður hjá Sinaloa Civic Front, að dularfull mannshvörf síðustu vikur tengist umræddu banni.
Óvíst er með öllu hvort bannið megi rekja til umhyggju hátt settra meðlima Sinaloa-hringsins fyrir lífi og heilsu viðskiptavina sinna. Talið er líklegra að samtökin telji að með þessu skrefi fái þau frið fyrir bandarískum yfirvöldum sem skorið hafa upp herör gegn samtökunum að undanförnu.
Í janúar var Ovidio Guzman, sonur Joaquín „El Chapo“ Guzman, handtekinn af mexíkóskum yfirvöldum. Í apríl gáfu bandarísk yfirvöld svo út ákæru á hendur Ovidio, þremur bræðrum hans og fjölda annarra meðlima samtakanna. Heimildarmaður Wall Street Journal segir að meðlimir gengisins óttist þessi afskipti og mögulegt framsal til Bandaríkjanna.
Skiptar skoðanir eru þó um það hvort Sinaloa-samtökin séu raunverulega að færa sig úr framleiðslu fentanyls eða hvort um markaðsbragð (e. publicity stunt) sé að ræða. Þannig segir Wall Street Journal að bandarísk yfirvöld efist um það og ekki hafi stórvægileg breyting sést að undanförnu þegar kemur að smygli á efninu til Bandaríkjanna.